Körfubolti

Keflavíkurkonur fyrstar til að vinna Snæfell í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pálína Gunnlaugsdóttir var frábær í kvöld.
Pálína Gunnlaugsdóttir var frábær í kvöld. Mynd/Stefán
Keflavíkurkonur eru einar á toppi Dominos-deildar kvenna í körfubolta eftir fjögurra stiga sigur á Snæfelli, 73-69, í æsispennandi uppgjöfi tveggja efstu liðanna í Toyota-höllinni í Keflavík í kvöld. Þetta var ennfremur fyrsta tap Snæfells á tímabiliunu en liðið var búið að vinna níu fyrstu leiki sína í deild, Fyrirtækjabikar og Meistarakeppni.

Pálína Gunnlaugsdóttir átti frábæran leik hjá Keflavík og skoraði 26 stig og hin unga Sara Rún Hinriksdóttir bætti við 16 stigum. Hildur Sigurðardóttir skoraði 20 stig fyrir Snæfell en það dugði ekki til ekki frekar en tvennur frá þeim Kieraah Marlow (14 stig og 11 fráköst) og Hildi Björgu Kjartansdóttur (14 stig og 13 fráköst).

Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði fimm stig á fyrstu tveimur mínútunum og Keflavík komst í 7-2 á upphafsmínútunum. Snæfell náði að svara og komast í 11-9 en Keflavík var síðan skrefinu á undan út fyrsta leikhluta og leidi 18-15 við lok hans.

Keflavík var sex stigum yfir eftir fjögurra mínútna leik í 2. leikhluta, 23-17, en Snæfellskonur skoruðu þá átta stig gegn tveimur og komust yfir í 25-23. Liðin skiptust á að hafa forystuna út hálfleikinn en Keflavík var einu stigi yfir í hálfleik, 36-35.

Liðin skiptust á að skora í upphafi þriðja leikhluta og leikurinn hélst jafn. Keflavík var 48-45 yfir þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum en Snæfell vann þær 10-0 og leiddi með sjö stigum, 55-47, fyrir lokaleikhlutann.

Það tók Keflavíkurliðið aðeins rúmar þrjár mínútur að komast aftur yfir í leiknum, 58-57, og annar góður kafli Keflavíkurkvenna breytti stöðunni úr 60-62 í 71-64 en þá voru aðeins tvær mínútur voru eftir. Keflavík náði síðan að landa sigrinum í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×