Fótbolti

Messi kominn í 300 marka klúbbinn

Messi og Börsungar fagna.
Messi og Börsungar fagna.
Lionel Messi náði sögulegum áfanga í kvöld þegar hann skoraði sitt 300. mark á ferlinum. Hann gerði reyndar gott betur því hann er kominn í 301 mark eftir leikinn. Þetta er hann búinn að afreka í aðeins 419 leikjum. Barcelona vann í kvöld öruggan sigur á Rayo Vallecano, 0-5.

Það var David Villa sem opnaði teitið með marki á 19. mínútu en þrátt fyrir ágæt færi tókst Barcelona ekki að bæta við marki fyrir hlé.

Markið hans Messi kom í upphafi seinni hálfleiks en þetta var mark númer 269 fyrir Barcelona og svo er hann búinn að skora 31 mark fyrir Argentínu.

Xavi bætti svo þriðja markinu við áður en Fabregas jarðaði heimamenn með fjórða markinu. Markið hans Xavi var 50. deildarmark miðjumannsins fyrir félagið.

Það var svo afar vel við hæfi að Messi skyldi eiga lokaatriðið í veislunni með sínu 301. marki. Ótrúlegur leikmaður.

Barcelona er með sigrinum komið með þriggja stiga forskot á Atletico Madrid sem er í öðru sæti. Real Madrid er í fimmta sæti og einum ellefu stigum á eftir Börsungum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×