Körfubolti

Kobe við liðsfélaga: Þú ert ekki nógu merkilegur til að tala við mig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/Nordic Photos/Getty
Smush Parker hefur ekki mikið álit á manninum á bak við körfuboltamanninn Kobe Bryant og segir Kobe hafa forðast það að umgangast liðsfélaga sína í Lakers og jafnframt litið niður á þá. Bryant lét það frá sér í blaðaviðtali að Smush Parker ætti ekki heima í NBA-deildinni og það stóð ekki á viðbrögðum frá þessum fyrrum leikmanni Lakers, Cleveland Cavaliers, Detroit Pistons og Phoenix Suns.

„Í keppnisferðum liðsins þá ferðaðist hann ávallt með lífvörðunum sínum og þeir voru einu mennirnir sem hann talaði við. Í flugvélunum sat hann líka alltaf aftast og einsamall," sagði Smush Parker í útvarpsviðtali.

„Á miðju fyrsta tímabili okkar saman þá reyndi ég einu sinni að tala við hann því hann er liðsfélagi minn og vinnufélagi. Ég sé hann á hverjum degi og þarna reyndi ég að tala um fótbolta við hann. Hann svaraði því að ég mætti ekki tala við hann. Hann sagði að ég væri ekki nógu merkilegur til að tala við hann og þyrfti að afreka eitthvað meira inn á vellinum áður en kæmi að því. Hann var grafalvarlegur," sagði Parker.

Smush Parker sagðist á endanum hafa hætt að senda boltann á Kobe Bryant enda samband þeirra orðið mjög stirrt. Hann hrósaði samt leikmanninum Kobe Bryant.

„Ég bera engan kala til hans. Þessi maður kann að spila körfubolta og það sést á öllum hans ferli. Það sem mér líkar ekki við hann er hvernig maður hann er, það er persónuleiki hans og hvernig hann kemur fram við fólk. Ég er ekki hrifinn af þeirri hlið af Kobe Bryant," sagði Smush Parker.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×