Fótbolti

Mtiliga rekinn út úr danska klefanum - neitaði að spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Mtiliga.
Patrick Mtiliga. Mynd/Nordic Photos/Getty
Morten Olsen, þjálfari danska landsliðsins, rak einn leikmann sinn út úr búningsklefanum fyrir landsleik Dana og Ítala í Mílanó í gær og ætlar aldrei að velja leikmanninn aftur í landsliðið.

Morten Olsen var búinn að velja byrjunarliðið sitt þegar í ljós kom að Simon Poulsen gat ekki spilað vegna meiðsla. Patrick Mtiliga var hinsvegar í fýlu af því að Poulsen var upphaflega valinn frekar en hann og neitaði að spila þegar Olsen leitaði til hans.

„Það kemur fyrir að leikmenn séu ósáttir en þeir þurfa þá bara að sanna sig inn á vellinum. Ég hef aldrei kynnst öðru eins á mínum 40 árum í fótboltanum," sagði Morten Olsen við Ekstra Bladet.

„Ég bað hann umsvifalaust um að yfirgefa búningsklefann því hann var búinn að svíkja sína samspilara. Það er öruggt að hann hefur spilað sinn síðasta landsleik," sagði Olsen.

Michael Silberbauer kom inn í stöðu hægri bakvarðar í stað Simon Poulsen (og Patrick Mtiliga) en Danirnir töpuðu 1-3 fyrir Ítölum í þessum leik og hafa aðeins fengið tvö stig í fyrstu þremur leikjum sínum í riðlinum.

Dönsku blaðamennirnir fengu ekki viðtal við Patrick Mtiliga því hann strunsaði í burtu án þess að gefa færi á svara spurningum.

Patrick Mtiliga er 31 árs gamall vinstri bakvörður sem spilað með FC Nordsjælland. Hann var líka í fréttum eftir leikinn við Búlgaríu því þá var hann fórnarlamb kynþáttafordóma úr stúkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×