Körfubolti

Valsstelpurnar verða bleikar í heilan mánuð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Á myndinni  má sjá Ragnheiði Haraldsdóttur formann Krabbameinsfélagsins taka við söfnunarfé frá Valsstúlkunum; Rögnu Margréti Brynjarsdóttir og Lilju Ósk Sigmarsdóttur.
Á myndinni má sjá Ragnheiði Haraldsdóttur formann Krabbameinsfélagsins taka við söfnunarfé frá Valsstúlkunum; Rögnu Margréti Brynjarsdóttir og Lilju Ósk Sigmarsdóttur. Mynd/Siggi Anton
Kvennalið körfuknattleiksdeildar Vals ætlar að spila í bleikum búningum í öllum leikjum sínum í Domino's deildinni í októbermánuði. Í tilefni átaks Krabbameinsfélagsins í október, Bleiku slaufunnar, hafa Valsstelpurnar, ákveðið að leggja þessu þarfa málefni lið, bæði með því að vekja athygli á því sem og að safna fé.

Valskonur ætla að spila í bleiku í þessum fimm leikjum sínum í mánuðinum og reyna að auka þannig, með táknrænum hætti, vitund íþróttafólks og annarra á mikilvægi forvarna og heilbrigðis. Samhliða undirbúning fyrir komandi keppnistímabil, hafa liðsmenn Vals safnað fé sem rennur til átaksins. Stelpurnar hafa þegar safnað 420 þúsund krónum og mun söfnunin halda áfram allan októbermánuð.

"Í rúm 100 ár hefur það verið eitt meginhlutverk Vals að auka hreysti hugar og líkama og efla skilning á mikilvægi íþrótta sem forvarna. Því er það sameiginlegt markmið og verkefni Vals og krabbameinsfélagsins að stuðla að auknum lífsgæðum og skynsömu líferni. Það er von okkar Valsmanna og vissa að þessi söfnun og þetta vitundarskref aðstoði Krabbameinsfélagið í mikilvægum verkefnum þess. Í þessu samhengi er gott að minnast einkunnarorða Vals: Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði," segir í fréttatilkynningu frá Val.

Fyrsti leikur Valsliðsins í bleiku búningunum verður í kvöld þegar liðið tekur á móti Lengjubikarmeisturum Snæfells í Vodafone-höllinni en leikurinn hefst klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×