Körfubolti

Keflvíkingar bæta við sig manni fyrir leik kvöldsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Craion í leik með Oral Roberts University.
Michael Craion í leik með Oral Roberts University. Mynd/Nordic Photos/Getty
Keflvíkingar munu tefla fram nýjum bandarískum leikmanni þegar liðið fær Íslandsmeistara Grindavíkur í heimsókn í Toyota-höllina í kvöld í fyrstu umferð Dominos-deild karla. Leikurinn hefst klukkan 19.15 en fara einnig fram tveir aðrir leikir: Snæfell-ÍR og Þór Þorlákshöfn-Njarðvík.

Grindavík vann níu stiga sigur á Keflavík í Meistarakeppni KKÍ í síðustu viku, 92-83, en Keflvíkingar nýttu þá bara eitt kanagildi. Kevin Giltner og Darrel Keith Lewis léku með liðinu í Meistarakeppninni en Lewis er með íslenskt ríkisfang.

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur síðan þá samið við bandaríska leikmanninn Michael Craion um að leika með félaginu en Michael er 196 sm kraftframherji og vegur um 100 kíló.

Michael Craion lék með Oral Roberts University í bandaríska háskólaboltanum frá 2009 til 2012 þar sem hann skoraði um 11,8 stig og tók 6,7 fráköst að meðaltali í 69 leikjum.

Hann skoraði 13,3 stig í leik á fyrsta ári sínu en lék aðeins tvo leiki á öðru árinu eftir að hafa fótbrotnað á undirbúningstímabilinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×