Fótbolti

Van der Vaart lagði upp tvö þegar HSV vann meistara Dortmund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael van der Vaart fagnar með félögum sínum í dag.
Rafael van der Vaart fagnar með félögum sínum í dag. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Hollendingurinn Rafael van der Vaart lagði upp tvö mörk fyrir Hamburger SV í þýsku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið vann 3-2 heimasigur á meisturum Borussia Dortmund. Suður-Kóreumaðurinn Son Heung-Min skoraði tvö mörk fyrir HSV í leiknum. Bayern München komst aftur í toppsætið eftir 2-0 útisigur á Schalke 04.

Hamburger SV var aðeins búið að fá eitt stig út úr þremur fyrstu leikjum sínum og náði því að landa þarna sínum fyrsta sigri í dag en þýsku meistararnir í Borussia Dortmund töpuðu aftur á móti sínum fyrsta leik á tímabilinu.

Rafael van der Vaart lagði upp mark fyrir Heung-Min Son strax á 2. mínútu leiksins en Ivan Perišić jafnaði fyrir Dortmund á upphafsmínútu seinni hálfleiks. Ivo Iličević kom HSV aftur yfir á 55. mínútu eftir stoðsendingu frá Van der Vaart og Heung-Min Son bætti við sínu öðru marki aðeins fjórum mínútum síðar. Ivan Perišić minnkaði muninn á 60. mínútu með sínu öðru marki.

Toni Kroos og Thomas Müller skoruðu mörk Bayern München með þriggja mínútna millibili í seinni hálfleik í 2-0 útisigri á Schalke 04. Bayern fór aftur á toppinn en liðið er með jafnmörg stig og nýliðar Eintracht Frankfurt. Markatala Bayern er hinsvegar mun betri. Þessi lið eru þegar komin með fimm stiga forskot á næstu lið þótt aðeins fjórar umferðir séu búnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×