Fótbolti

Þýski dómarinn ætlar að leggja fram kæru á hendur Luisao

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordicphotos/Getty
Dómarinn Christian Fischer segist ætla að kæra Luisao, leikmann Benfica, eftir að Brasilíumaðurinn skallaði hann í æfingaleik Benfica gegn Fortuna Dusseldorf á laugardaginn.

Atvikið átti sér stað á 38. mínútu leiksins. Leikmenn Benfica áttu eitthvað vantalað við dómarann þegar Luisao kom aðvífandi. Brasilíumaðurinn virtist skalla Fischer sem féll til jarðar og missti meðvitund.

Fischer kom til meðvitundar skömmu síðar en neitaði að halda leik áfram.

„Ég hef upptökur af atvikinu til sönnunar. Hann getur sagt hvað sem hann vill. Það gerir yfirlýsingar hans ennþá kjánalegri því allir sáu hvað gerðist," hefur Express eftir dómaranum.

„Í tuttugu ára starfstíð minni innan dómarastéttarinnar hef ég aldrei gengið í gegnum neitt þessu líkt, hvorki í minni deildunum eða í Bundesligunni," segir Fischer.

Luisao segist hins vegar saklaus.

„Ég óttast ekki refsingu og hef hreina samvisku," segir Luisao og knattspyrnustjóri Benfica, Jose Antonio Carraca, tekur í sama streng.

„Þetta var eðlilegt samstuð og viðbrögð dómarans voru aumkunarverð. Þetta var hlægilegt."

Þýska knattspyrnusambandið segir það koma í hlut portúgalska sambandsins að ákveða hvort Luisao verði refsað fyrir athæfið.


Tengdar fréttir

Luisao rotaði dómara í æfingarleik

Brasilíski varnarmaðurinn Luisao sem spilar með Benfica var ekki ánægður með ákvörðun dómarans í æfingarleik Benfica og Fortuna Dusseldorf í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×