Fótbolti

Lið Þóru og Söru á í fjárhagslegum erfiðleikum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sara (sjá mynd) og Þóra fóru alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á síðustu leiktíð.
Sara (sjá mynd) og Þóra fóru alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á síðustu leiktíð. Mynd/Daníel
LdB Malmö, lið landsliðskvennanna Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og Þóru Bjargar Helgadóttur, stendur illa fjárhagslega. Þetta kemur fram í sænska vefmiðlinum Expressen.

Félagið, sem unnið hefur sænsku deildina undanfarin tvö ár, skuldar 1,48 milljónir sænskra króna eða sem nemur um 27 milljónum íslenskra króna.

„Ég get ekki útilokað möguleikann á að félagið verði gjaldþrota. Gerist það þá verðum við gjaldþrota með gullverðlaun um hálsinn," segir framkvæmdastjórinn Niclas Carlnén.

Malmö situr í öðru sæti deildarinnar með 27 stig. Liðið er stigi á eftir Tyresö og félögum en á þó leik til góða. Carlnén segir erfitt að meta hvort rétta skrefið sé að losa launahærri leikmenn af launaskrá.

„Við sjáum enn möguleika á því að komast í Meistaradeild Evrópu sem myndi færa okkur tekjur. Ef við minnkum samkeppnishæfni okkar með því að losa okkur við leikmenn þá töpum við einnig möguleikanum að afla okkur tekna," segir Carlnén.

Umfjöllun sænska miðilsins má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×