Sport

Aníta og Stefanía Norðurlandameistarar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aníta (lengst til hægri) í úrslitum 800 metra hlaupsins á HM unglinga í Barcelona.
Aníta (lengst til hægri) í úrslitum 800 metra hlaupsins á HM unglinga í Barcelona. Nordicphotos/Getty
Aníta Hinriksdóttir úr ÍR og Stefanía Valdimarsdóttir úr Breiðabliki unnu til gullverðlauna á Norðurlandamóti unglinga 19 ára og yngri í Svíþjóð í gær.

Aníta hljóp 800 metrana á 2:03;66 mínútum og kom langfyrst í mark. Tíminn er nálægt hennar besta tíma frá því á heimsmeistaramótinu í Barcelona, 2:03;15 mínútur.

Stefanía kom fyrst í mark í 400 metra grindarhlaupinu á 60,36 sekúndum sem er við hennar besta tíma, 60,32 sekúndur.

Sindri Lárusson úr ÍR vann til bronsverðlauna í kúluvarpi. Hans besta kast var 17,86 metrar en kastsería hans var mjög jöfn.

Hilmar Örn Jónsson úr ÍR setti aldursflokkamet í sleggjukasti í flokki 16-17 ára með kasti upp á 62,54 metra. Kastsería hans var jöfn líkt og hjá liðsfélaga hans úr ÍR.

Nokkrir keppendur bættu sinn besta árangur. Dóróthea Jóhannesdóttir úr ÍR hljóp 100 metrana á 12,56 sekúndum, Ingi Rúnar Kristinsson úr Breiðabliki stökk 6,57 í langstökki, Ingvar Hjartarson úr Fjölni hljóp 5000 metrana á 15:25;83 mínútum og Snorri Stefánsson úr ÍR hljóp 800 metrana á 1:55;76 mínútum.

Keppni heldur áfram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×