Sport

Bolt varði gullverðlaun sín á næstbesta tíma sögunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bolt kemur í mark og ver gullverðlaun sín.
Bolt kemur í mark og ver gullverðlaun sín. Nordicphotos/Getty
Jamaíkamaðurinn Usain Bolt kom fyrstur í mark í 100 metra hlaupi karla á Ólympíuleikunum í Lundúnum á nýju ólympíumeti. Bolt varði þar með gullverðlaun sín frá því í Peking fyrir fjórum árum.

Bolt var yfirlýsingaglaður í aðdraganda leikanna og ef marka má úrslitahlaupið hafði hann efni á því. Bolt kom langfyrstur í mark á tímanum 9,63 sekúndur en næstur á eftir honum var landi hans Yohan Blake á 9,75 sem er jöfnun á hans besta tíma.

Bandaríkjamaðurinn Justin Gatlin hljóp á sínum besta tíma, 9,79 sekúndum, og nældi í þriðja sætið. Asafa Powell frá Jamaíka tognaði í hlaupinu og kom langsíðastur í mark.

Tími Bolt er sá næstbesti sem mælst hefur í greininni. Hann er sjálfur handhafi heimsmetsins, 9,58 sekúndur, sem hann setti árið 2009.

Úrslitin

1. Usain Bolt 9,63 sek

2. Yohan Blake 9,75 sek

3. Justin Gatlin 9,79 sek

4. Tyson Gay, 9,80 sek

5. Ryan Bailey 9,88 sek

6. Churandy Martina 9,94 sek

7. Richard Thompson, 9,98 sek

8. Asafa Powell, 11,99 sek




Fleiri fréttir

Sjá meira


×