Enski boltinn

United klikkaði á öllum vítunum sínum og Barca vann

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rooney í baráttu við Puyol og Mascherano í kvöld.
Rooney í baráttu við Puyol og Mascherano í kvöld. Nordicphotoso/Getty
Barcelona vann Manchester United í æfingaleik liðanna í Gautaborg í kvöld. Úrslitin réðust í vítakeppni eftir markalaust jafntefli.

Ekki var spiluð framlenging eins og venjulega heldur var gripið til vítakeppni að loknum venjulegum leiktíma. Hvort lið átti að spyrna þrisvar en þó þurfti hvort lið aðeins að spyrna tvisvar.

Nani skaut í slá en Pinto, sem kom inn á í hálfleik í lið Barcelona, varði spyrnu Ashley Young. Xavi og Gerard Pique skoruðu hins vegar báðir af öryggi úr sínum spyrnum.

Óhætt er að segja að liðsmenn United hafi farið illa að ráði sínu á punktinum í kvöld. Undir lok fyrri hálfleiks fékk United vítaspyrnu. Wayne Rooney fór á punktinn en Victor Valdes varði. Frákastið hrökk til Rooney sem skaut langt framhjá.

Barcelona réð gangi mála lengst af í leiknum en gekk illa að skapa sér færi. Lionel Messi átti hörkuskot í fyrri hálfleik sem De Gea varði vel en í síðari hálfleik komst Pedro næst því að skora en aftur varði landi hans í marki United vel.

United heldur næst til Þýskalands en liðið mætir Hannover 96 í æfingaleik um helgina. Börsungar halda hins vegar til Rúmeníu þar sem þeir mæta Dinamo Búkarest á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×