Fótbolti

Vilanova: Mér leið aldrei eins og aðstoðarþjálfara hjá Guardiola

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tito Vilanova og Pep Guardiola.
Tito Vilanova og Pep Guardiola. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tito Vilanova er tekinn við af Pep Guardiola sem þjálfari spænska stórliðsins Barcelona en ef marka má ummæli Vilanova á blaðamannafundi þá er þetta ekki svo mikil breyting fyrir hann. Samkvæmt Tito þá leið honum aldrei eins og aðstoðarmanni við hlið Guardiola.

„Þegar við Pep vorum að ræða fótbolta þá vorum við sammála í 99,9 prósent tilfella. Mér leið aldrei eins og aðstoðarþjálfara hjá honum því ég fékk að taka þátt í öllum ákvörðunum," sagði Tito Vilanova á blaðamannafundi.

Tito Vilanova stýrði Barcelona í fyrsta sinn í gær þegar liðið vann 2-1 sigur á Hamburger SV í æfingaleik í Þýskalandi. Barca lék án spænsku Evrópumeistaranna í leiknum og þá gat Lionel Messi ekki spilað leikinn vegna meiðsla.

Vilanova missti líka einn leikmann í leiknum því Marc Muniesa meiddist illa á hné í leiknum. „Það eru hræðilegar fréttir og eitthvað sem við gerum allt til að forðast í svona leikjum. Þetta er mikil synd því hann var að spila mjög vel," sagði Vilanova.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×