Sport

Engir Ólympíuleikar vegna kynþáttaníðs

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Grísku þrístökkskonunni Pasaskevi Papachristou hefur verið vikið úr Ólympíuhópi Grikkja vegna skrifa sinna á samskiptavefinn Twitter. Reuters greinir frá þessu.

Papachristou skrifaði eftirfarandi færslu á Twitter-síðu sína í dag:

„Þar sem fjöldi Afríkubúa í Grikklandi er svo mikill... geta Moskítóflugurnar frá Vestur-Níl að minnsta kosti étið heimatilbúinn mat."

Einn hefur látist og fimm önnur tilfelli komið upp í Aþenu í júlí vegna veiru sem kennd er við Vestur-Níl. Papachristou baðst síðar afsökunar á ummælum sínum en ákvörðun Ólympíunefndar Grikkja var ekki haggað.

„Ég biðst innilegrar afsökunar og skammast mín fyrir neikvæðu umræðuna sem ég setti í gang enda ætlaði ég aldrei að særa neinn," skrifaði Papachristou á Facebook-síðu sína í dag og lýsti yfir miklum vonbrigðum með ákvörðunina.

Skiptar skoðanir eru í Grikklandi um ákvörðun Ólympíunefndarinnar en mikill fjöldi innflytjenda frá Afríku og Asíu hefur skapað ólgu í landinu. Sér í lagi hafa fordómar í garð innflytjendanna vaxið í kjölfar efnahagsvandamála Grikkja sem ekki sér fyrir endann á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×