Fótbolti

Alfreð þurfti að taka verkjatöflur fyrir leikinn en skoraði samt þrennu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason lét veikindi ekki trufla sig í kvöld þegar hann skoraði sína fyrstu þrennu í sænsku úrvalsdeildinni. Alfreð fór á kostum í 4-1 sigri Helsingborg á Gefle en þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn þeirra Åge Hareide og Stefan Schwarz.

„Þrjú mörk og þrjú stig koma okkur í betri stöðu," sagði Alfreð Finnbogason við Canal Plus eftir leikinn en sigurinn skilaði Helsingborg upp í þriðja sæti deildarinnar níu stigum á eftir toppliði Elfsborg.

„Þegar ég vaknaði í morgun þá vissi ég ekki hvort ég gæti spilað leikinn. Ég er búinn að vera veikur en verkjatöflur og te björguðu málunum," sagði Alfreð og hann er ánægður með áherslur nýju þjálfarana.

„Við spilum beinskeyttari bolta núna og sækjum meira þegar við höfum boltann. Það gekk fullkomlega upp í dag," sagði Alfreð en hann hefur nú skorað 8 mörk í 13 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni í ár og er í hópi markahæstu manna deildarinnar.

Það er líka hægt að sjá viðtal við Alfreð á heimasíðu Helsingborg með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×