Fótbolti

Mandzukic fer til Bayern München

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mario Mandzukic.
Mario Mandzukic. Mynd/Nordic Photos/Getty
Bayern München hefur gengið frá kaupum á króatíska framherjanum Mario Mandzukic en Bayern mun borga VfL Wolsfburg um tólf milljónir evra fyrir leikmanninn. Mandzukic sló í gegn á EM en hann skoraði 3 mörk í 3 leikjum með Króötum í keppninni.

Mandzukic á eftir að fara í gegnum læknisskoðun þar sem hann fór heim í frí eftir að Króatía datt út úr EM. Umboðsmaður hans hefur staðfest það að leikmaðurinn sinn sé á leiðinni til þýska stórliðsins. Mandzukic mun skrifa undir samning til ársins 2016.

Bayern var að leita að öðrum framherja og Edin Dzeko hjá Manchester City var um tíma orðaður við liðið. Bosníumaðurinn hefði hinsvegar kostað Bæjara í kringum 40 milljónir evra sem nær fjórfalt það sem liðið borgar fyrir Mandzukic.

Mario Mandzukic er 26 ára gamall og hefur spilað með Wolfsburg í tvö tímabil. Hann var með 12 mörk og 10 stoðsendingar í 32 leikjum í þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×