Skoðun

Herdís, einmitt

Ólína Þóra Friðriksdóttir skrifar
Það er mikilvægt að í embætti forseta Íslands veljist manneskja sem er traust og heiðarleg. Manneskja sem leiðir þjóðina frá siðleysi, vantrausti og vonbrigðum hrunsins. Manneskja sem byggir lífssýn sína og vinnu á þeim grundvallar gildum sem nú og alltaf eru okkur svo gríðarlega mikilvæg. Mannréttindum og lýðræði. Þessar grunnstoðir þarf stöðugt að styðja og styrkja.

Herdís Þorgeirsdóttir er sá frambjóðandi sem ég vil sjá í embætti forseta Íslands á næsta kjörtímabili.

Herdísi upplifi ég sem sterka manneskju. Hún er ákveðin og kröfuhörð, vitur, hugsandi, hefur heilbrigða dómgreind og örugga framkomu.

Ég var nemandi Herdísar í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, sat hjá henni kúrs um viðskipti og mannréttindi. Herdís var afar áhugasöm um efnið og hafði á því mikla þekkingu. Meðal annars var fjallað um tengsl viðskipta og mannréttindabrota í alþjóðaviðskiptum. Minn hugur opnaðist fyrir þeim raunveruleika að víðsvegar um heiminn misbeita alþjóðafyrirtæki gróflega því valdi sem fjármagnið veitir þeim og maka krókinn á kostnað fólks og náttúru. Hvar sem þau komast upp með það. Frelsi og lýðræði er ekki sjálfgefið, því þarf að sinna og viðhalda. Umræða og upplýsing um þessi mál í tímunum hjá Herdísi hafði áhrif á mig.

Einnig var ég, ásamt fleirum, Herdísi til aðstoðar við undirbúning fyrstu ráðstefnunnar sem haldin var undir yfirskriftinni „Tengslanet – Völd til kvenna" sem hún setti upp á Bifröst vorið 2004. Þar kom greinilega fram kjarkur hennar, elja og trú á það sem hún tekur sér fyrir hendur.

Þessi kynni mín af Herdísi urðu til þess að þegar hún bauð sig fram til forseta nú í vor, þá hikaði ég ekki við að lýsa yfir stuðningi við hennar framboð.

Það er einmitt manneskja með hennar kraft og eiginleika sem við þurfum í embætti forseta Íslands núna.

X-Herdís.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×