Fótbolti

Lilleström vill halda Birni Bergmann til 13. júlí - búnir að semja við Wolves

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson. Mynd/Vilhelm
Lilleström tilkynnti það á heimasíðu sinni í kvöld að félagið væri búið að taka tilboði Úlfanna í íslenska landsliðsframherjann Björn Bergmann Sigurðarson. Björn Bergmann á þó enn eftir að ganga frá samningi við enska félagið.

„Við höfum eins og flestir vita fengið tilboð frá Wolverhampton í Sigurðarson. Eftir viðræður um helgina höfðum við samþykkt þetta tilboð," sagði Torgeir Bjarmann, íþróttastjóri Lilleström í viðtali á heimasíðu félagsins.

„Það hefur verið mikið rætt hversu lengi hann verður í Lilleström. Við viljum halda honum eins lengi og mögulegt er því við höfum lítinn tíma til að vinna upp slakan árangur í fyrri umferð. Þangað til hann verður leikmaður Úlfanna þá mun hann gefa allt fyrir okkar lið," sagði Bjarmann.

Lilleström vill halda Birni Bergmann til 13. júlí þannig að hann spili sinn síðasta leik með félaginu á móti Tromsö. Samkvæmt því á Björn Bergmann eftir að spila þrjá leiki fyrir Lilleström áður en hann fer til Englands.

Björn Bergmann hefur skorað 7 mörk í 11 deildarleikjum og 11 mörk í 13 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili en í fyrrasumar skoraði hann 5 mörk í 20 deildarleikjum.

Wolves féll úr ensku úrvalsdeildinni í vor og mun því spila í ensku b-deildinni á næstu leiktíð. Með liðinu spilar íslenski landsliðsmiðjumaðurinn Eggert Gunnþór Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×