Fótbolti

Kristianstad og Malmö áfram í bikarnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sif Atladóttir (fremst) gat leyft sér að brosa í gær en Katrín Jónsdóttir (til hægri) mátti sætta sig við tap.
Sif Atladóttir (fremst) gat leyft sér að brosa í gær en Katrín Jónsdóttir (til hægri) mátti sætta sig við tap. Mynd / Kristianstads DFF
Sjö leikir fóru fram í 16-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í sænska boltanum í gær. Íslendingaliðin Kristianstad og LdB Malmö komust áfram í átta liða úrslit keppninnar. Kif Örebro og Djurgården féllu hins vegar úr leik.

Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, lagði Linköping á heimavelli 2-0. Guðný Björk Óðinsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Sif Atladóttir spila með Kristianstad og átti Katrín skot í slá í leiknum.

LdB Malmö, lið Söru Bjarkar Gunnarsdóttur og Þóru Bjargar Helgadóttur, vann stórsigur á b-deildarliði Rödeby AIF. Malmö leiddi 5-0 í hálfleik, bætti við einu í þeim síðari og vann 6-0 sigur.

Djurgården, lið Guðbjargar Gunnarsdóttur og Katrínar Jónsdóttur, er úr leik í bikarnum eftir 1-3 tap á heimavelli gegn Tyresö. Marta skoraði tvö marka Tyresö sem er efst í sænsku deildinni með jafnmörg stig og Malmö og Vittsjö GIK.

Þá datt KIF Örebro, lið Eddu Garðarsdóttur og Ólínu G. Viðarsdóttur, út úr bikarnum eftir 1-0 tap á heimavelli gegn Umeå IK.

Átta liða úrslitin verða spiluð í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×