Körfubolti

NBA í nótt: Philadelphia knúði fram oddaleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Elton Brand  gerir sig breiðan í leiknum í nótt.
Elton Brand gerir sig breiðan í leiknum í nótt. Mynd/AP
Philadelphia heldur áfram að gera það gott í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta en liðið vann í nótt mikilvægan sigur á Boston.

Philadelphia vann með sjö stiga mun, 82-75, í sjötta leik liðanna í undanúrslitarimmu þeirra í Austurdeildinni. Þar með er ljóst að oddaleik þarf til að knýja fram niðurstöðu en sigurvegarinn mun mæta annað hvort Miami eða Indiana í lokaúrslitunum.

Philadelphia kom inn í úrslitakeppnina sem lakasta liðið í Austurdeildinni en gerði sér lítið fyrir og sló út liðið með bestan árangur allra liða í vetur, Chicago Bulls, í fyrstu umferðinni.

Liðið á nú möguleika á að komast alla leið í úrslit austursins en þarf þó að vinna sterkt lið Boston á útivelli í oddaleiknum á laugardaginn.

„Það eina sem við vildum gera var að vinna í kvöld, svo við myndum komast aftur til Boston. Við skulum svo sjá til hvað gerist," sagði Doug Collins, þjálfari Philadelphia.

Það var lítið skorað í leiknum en eftir jafnan fyrri hálfleik náði Philadelphia að síga fram úr í þeim síðari. Jrue Holiday skoraði 20 stig og Elton Brand var með þrettán stig og tíu fráköst.

Boston spilaði ekki vel. Skotnýtingin var 33 prósent, liðið tapaði sautján boltum og leikmenn hittu úr aðeins þremur af fjórtán þriggja stiga tilraunum. Paul Pierce var samt með 24 stig og Kevin Garnett 20 stig og ellefu fráköst. Ray Allen náði sér alls ekki á strik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×