Körfubolti

NBA: Indiana jafnaði á móti Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade.
Dwyane Wade. Mynd/AP
Indiana Pacers jafnaði metin í 1-1 í nótt í undanúrslitaeinvígi Austurdeildarinnar á móti Miami Heat en þetta var fyrsti heimaleikurinn sem Miami tapar í úrslitakeppninni NBA-deildarinnar í körfubolta í ár. Indiana vann leikinn 78-75 og næstu tveir leikir fara fram á heimavelli liðsins í Indianapolis.

Miami lék án Chris Bosh og það munar greinilega um hann í baráttunni undir körfunum en Indiana lagði grunninn að sigri sínum með því að vinna þriðja leikhlutann 28-14 eftir að Miami var 38-33 yfir í hálfleik.

David West skoraði 16 stig og tók 10 fráköst hjá Indiana og George Hill var með fimmtán stig. LeBron James skoraði 28 stig fyrir Miami og Dwyane Wade var með 24 stig.

LeBron James klikkaði á tveimur vítum þegar 54 sekúndur voru eftir af leiknum og Miami var einu stigi undir. Dwyane Wade átti líka möguleika á því að jafna leikinn þegar 16 sekúndur voru eftir en klikkaði af stuttu færi.

„Þetta er ekkert til að halda upp á því við höfum bara unnið einn leik í einvíginu. Við vorum grimmari í vörninni og héldum líka yfirvegun í upphafi leiksins sem hjálpaði okkur út leikinn," sagði David West eftir leikinn.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×