Körfubolti

NBA: Auðvelt hjá San Antonio í fyrsta leik á móti Clippers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan var góður í nótt.
Tim Duncan var góður í nótt. Mynd/AP
San Antonio Spurs hélt sigurgöngu sinni áfram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt með því að vinna auðveldan sextán stiga sigur á Los Angeles Clippers, 108-92, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

San Antonio hefur þar með unnið alla fimm leiki sína í úrslitakeppninni í ár og alls fimmtán síðustu leiki sína í deild og úrslitakeppni. Liðið hafði ekki spilað í viku eftir að hafa sópað út Utah Jazz en það kom ekki að sök.

Los Angeles Clippers var að spila í fyrsta sinn í 2. umferð úrslitakeppninnar frá árinu 2006 og var inn í leiknum fram í þriðja leikhluta. Spurs-liðið náði þá 14-3 spretti sem skilaði liðinu 19 stiga forystu. Eftir það var sigurinn aldrei í hættu.

Hinn 36 ára gamli Tim Duncan var stigahæstur á vellinum með 26 stig auk þess að taka 10 fráköst en Manu Ginobili kom með 22 stig á 26 mínútum af bekknum. Tony Parker lét sér nægja 7 stig en gaf 11 stoðsendingar. Kawhi Leonard skoraði 16 stig og Danny Green var með 15 stig en Spurs-liðið hitti úr 13 af 25 þriggja stiga skotum sínum í leiknum (52 prósent).

Eric Bledsoe var stigahæstur hjá Clippers með 23 stig, Blake Griffin skoraði 15 stig og tók 9 fráköst en Chris Paul hitti aðeins úr 3 af 13 skotum og var með 6 stig og 10 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×