Fótbolti

Rekinn útaf fyrir að mótmæla því að fá víti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba mótmælir hér vítaspyrnudómi í leik á móti Barcelona en Drogba fékk þá dæmt á sig víti.
Didier Drogba mótmælir hér vítaspyrnudómi í leik á móti Barcelona en Drogba fékk þá dæmt á sig víti. Mynd/Nordic Photos/Getty
Talat Abunima, leikmaður norska E-deildarliðsins Sandved, segir í viðtali við staðarblaðið Sandnesposten að hann hafi fengið rautt spjald í leik liðsins á móti Ild á dögunum fyrir að mótmæli því að fá víti.

Sandved var 3-1 yfir í leiknum þegar hinn 36 ára gamli Talat Abunima féll í teignum og dómari leiksins dæmdi víti við mikil mótmæli frá leikmönnum Ild. Abunima fór þá til dómarans og reyndi að útskýra fyrir honum að þetta hafi ekki verið brot.

„Ég sagði við hann að ég hefði farið framhjá leikmanni Ild og síðan dottið sjálfur. Þetta var ótrúlega klaufalegt hjá mér og ég varð að segja sannleikann þegar ég sá að dómarinn benti á punktinn," sagði Talat Abunima.

Nedzad Munjic, sem dæmir fyrir Viking FK, var ekki haggað og hann var líka allt annað en sáttur við ósk Abunima um að hætta við vítaspyrnudóminn. Munjic leit á það sem ögrun og ákvað því að reka leikmanninn útaf. Hann sagði í viðtali við Sandnesposten vera enn viss um að um réttan dóm hafi verið að ræða og að hann gæti auk þess ekki breytt því sem hann er búinn að dæma.

Það er hægt að lesa meira um málið með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×