Körfubolti

Heimsfriðurinn baðst afsökunar en má eiga von á þungri refsingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Metta World Peace, áður Ron Artest, sýndi gamalkunna takta þegar hann gaf James Harden svakalegt olnbogaskot í leik LA Lakers og Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni í gær.

Artest breytti nafni sínu í World Peace í september á síðasta ári en óhætt er að segja að hann hafi ekki staðið undir nafni sem friðarsinni í leiknum í gær, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Artest var þá að fagna eigin troðslu og ákvað um leið að gefa Harden afar þungt högg í andlitið með olnboganum. World Peace baðst afsökunar eftir leikinn en sagði að um óviljaverk hefði verið að ræða. Hann skrifaði svo eftirfarandi á Twitter-síðuna sína:

„I just watched the replay again..... Oooo.. My celebration of the dunk really was too much... Didn't even see James ..... Omg... Looks bad."

Úrslitakeppnin hefst á laugardaginn og má búast við því að World Peace verði úrskurðaður í langt bann. Það á eftir að koma í ljós hversu langt bannið verður en gera má ráð fyrir því að það verði talsvert styttra en 86 leikja bannið sem hann fékk í nóvember árið 2004 fyrir að slást við áhorfendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×