Körfubolti

Samþykkt að fækka erlendum leikmönnum í körfuboltanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
J'Nathan Bullock hefur slegið í gegn með Grindavík í vetur.
J'Nathan Bullock hefur slegið í gegn með Grindavík í vetur.
Samþykkt var að gera róttækar breytingar á leikmannamálum í körfuboltanum á formannafundi KKÍ sem haldinn var í dag. Hefur stjórn KKÍ verið falið að útfæra tillögurnar sem samþykktar voru. Þetta kom fram á vef KKÍ í kvöld.

Samkvæmt þeim verður aðeins heimilt að hafa tvo erlenda leikmenn á vellinum hverju sinni í leikjum í úrvalsdeild karla. Í leikjum 1. deildar karla og úrvalsdeildar kvenna má nú aðeins vera með einn erlendan leikmann inn á í einu.

Hingað til hefur liðum verið heimilt að vera með tvo bandaríska leikmenn og svo ótakmarkaðan fjölda leikmanna með evrópskt ríkisfang í leikmannahópnum. Reglubreytingarnar banna í sjálfu sér ekki að vera með fleiri en tvo erlenda leikmenn í hópnum en þær setja liðum takmarkanir um notkun þeirra í leikjum.

Þá var einnig mælt með því að breyta félagaskiptareglunum. Opið verður fyrir félagaskipti frá 1. júní til 15. nóvember og svo aftur frá 1. janúar til 31. janúar.

Hingað til hefur verið heimilt að skipta út bandarískum leikmönnum fyrirvaralaust og þess vegna í miðri úrslitakeppni - eins og Þórsarar gerðu vegna meiðsla Matthew Hairston fyrr í þessu mánuði.

Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdarstjóri KKÍ, sagði við Vísi í kvöld að sú regla sé orðin 30 ára gömul og því sé um mikla breytingu að ræða fyrir körfuboltahreyfinguna.

Félagaskiptaglugginn fyrir íslenska og evrópska leikmenn hefur hingað til aðeins verið lokaður frá 5. febrúar til 31. maí. Nýju dagsetningarnar munu ná yfir alla leikmenn.

Gert er ráð fyrir því að félög muni byrja að vinna eftir þessum reglum eftir nokkrar vikur, þegar stjórn KKÍ hefur skilað af sér tillögum að reglubreytingum. Þær verða þó ekki formlega samþykktar fyrr en á næsta formannafundi KKÍ, sem haldinn verður í ágúst.

Friðrik Ingi sagði að þessar tillögur hefðu verið samþykktar af miklum meirihluta fundarmanna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×