Körfubolti

30. sigur Benedikts í úrslitakeppni en sá fyrsti á KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson.
Benedikt Guðmundsson. Mynd/Hjalti Þór Vignisson
Benedikt Guðmundsson er að gera frábæra hluti með nýliða Þórs úr Þorlákshöfn sem unnu yfirburðasigur á Íslandsmeisturum KR í gær í öðrum leik liðanna í undanúrslitaeinvígi Iceland Express deildar karla í körfubolta. Staðan í einvíginu eru nú 1-1 og er næsti leikur í DHL-höllinni.

Benedikt var þarna að vinna tímamótasigur í úrslitakeppninni í gær en hann hefur nú stýrt liðum til sigurs í 30 leikjum í úrslitakeppnum karla og kvenna.

Benedikt var aftur á móti þarna að vinna sinn fyrsta sigur á KR í úrslitakeppni en hann er borinn og barnfæddur KR-ingur og er að þjálfa í fyrsta sinn í úrslitakeppni á móti sínum uppeldisfélagi.

Benedikt hefur unnuð 24 af 44 leikjum í úrslitakeppni karla og 6 af 8 leikjum í úrslitakeppni kvenna eða alls 30 leiki af 52. Hann hefur ekki tapað einvígi í úrslitakeppni síðan vorið 2008 er KR féll út fyrir ÍR í átta liða úrslitum.

Næsti leikur Þórsara er í DHL-höllinni á sunnudagskvöldið þar sem að þeir hafa ekki unnið í vetur en Benedikt þjálfar þeirra hefur hinsvegar unnið 14 af 30 sigurleikjum sínum í úrslitakeppni í húsinu.

Ferill Benedikts Guðmundssonar í úrslitakeppni:

1996 með KR 1 sigur - 2 töp (á móti Keflavík)

1998 með Grindavík 1 sigur - 2 töp (á móti ÍA)

2005 með Fjölni 2 sigrar - 4 töp (á móti Skallagrími 1-2 og Snæfelli 0-3)

2006 með Fjölni 0 sigrar - 2 töp (á móti Keflavík)

2007 með KR 8 sigrar - 4 töp (á móti ÍR 2-1, Snæfelli 3-2 og Njarðvík 3-1)

2008 með KR 1 sigur - 2 töp (á móti ÍR)

2009 með KR 8 sigrar - 2 töp (á móti Breiðabliki 2-0, Keflavík 3-0 og Grindavík 3-2)

2010 með kvennaliði KR 6 sigrar - 2 töp (á móti Haukum 3-0 og Hamar 3-2)

2012 með Þór Þorl. 3 sigrar - 2 töp (á móti Snæfelli 2-1 og KR 1-1)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×