Enski boltinn

Babbel: Gylfi hefur næsta tímabil í búningi Hoffenheim

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi og félagar unnu þrjá af fjórum leikjum sínum í mars.
Gylfi og félagar unnu þrjá af fjórum leikjum sínum í mars. Nordic Photos / Getty
Markus Babbel, knattspyrnustjóri Hoffenheim, minnir á að Gylfi Þór Sigurðsson er samningsbundinn félaginu. Hann segist vel meðvitaður um hæfileika Hafnfirðingsins og vill kynnast honum betur þegar hann snýr aftur úr láni hjá Swansea.

Gylfi var í gær kjörinn leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni og í kjölfarið hefur breska pressann fjallað mikið um landsliðsmanninn. Slúðurpressan hefur meðal annars orðað Gylfa við bæði Manchester United og Arsenal en Babbel segir hreinar línur að Gylfi hefji næsta tímabil með Hoffenheim.

„Gylfi er samningsbundinn félaginu. Hann kemur aftur og æfir með félaginu," segir Babbel. Gylfi fékk fá tækifæri í liði Hoffenheim undir stjórn Holger Stanislawski en Babbel segist vel meðvitaður um hæfileika Gylfa.

„Hann sýndi það hér hjá okkur hversu góðar sendingar hann gefur og að hann gæti skorað mörk. Ég vil gjarnan kynnast honum betur og vil því fá hann hingað aftur," sagði Babbel við þýska blaðið Rhein-Neckar-Zeitung.

Hann segist gjarnan myndu vilja heimsækja Gylfa til Wales.

„Það er erfitt fyrir mig að stökkva upp í flugvél og heimsækja hann í Swansea vegna þess hve tímabundinn ég er," sagði Babbel greinilega orðinn spenntur fyrir því að fá besta leikmann marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni í sínar raðir á ný.


Tengdar fréttir

Gerrard og Rooney hafa oftast fengið verðlaunin sem Gylfi fékk

Steven Gerrard hjá Liverpool og Wayne Rooney hjá Manchester United hafa oftast verið kosnir leikmenn mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni eða fimm sinnum hvor. Gylfi Þór Sigurðsson varð í dag fyrsti íslenski leikmaðurinn í sögunni til að vera kosinn besti leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni en enginn þótti standa sig betur í mars en Gylfi.

Wenger ræddi við McDermott um Gylfa Þór

Enska götublaðið The Sun greinir frá því í kvöld að Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hafi spurst fyrir um Gylfa Þór Sigurðsson, leikmann Swansea.

Gylfi valinn besti leikmaður marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea City, hefur verið valinn besti leikmaður marsmánaðar í ensku úrvalsdeildinni en Gylfi spilaði frábærlega með nýliðunum í mars. Þetta er mikill heiður fyrir íslenska landsliðsmanninn sem er fyrsti Íslendingurinn sem hlýtur þessi verðlaun.

Gylfi Þór: Vonandi fyrstu verðlaunin af mörgum

Gylfi Þór Sigurðsson segir að það hafi komið sér í opna skjöldu að hafa verið útnefndur leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni. Hann fékk fregnirnar á æfingu með Swansea í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×