Fótbolti

Björn Bergmann við sjónvarpsmann TV2: Mér líkar bara ekki við þig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson í viðtalinu.
Björn Bergmann Sigurðarson í viðtalinu. Mynd/tv2.no
Björn Bergmann Sigurðarson er eitt heitasta nafnið í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta en þjálfarar hans og aðrir hafa verið að hrósa íslenska landsliðsframherjanum og búast við miklu af honum í framtíðinni.

Magnus Haglund, þjálfari Lilleström segir Björn Bergmann verða heitasta leikmanninn á öllum Norðurlöndum og Petter Vaagan Moen, liðsfélagi hans hjá Lilleström, segir að Björn Bergmann hafi allt til þess að bera til að ná langt í fótboltanum.

„Það er gaman að heyra þjálfarann segja þetta en þetta eru bara alltof stór orð," sagði Björn Bergmann en hann veit að það eru lið með augastað á honum.

„Það væri kannski réttast að fara til stærra liðs í sumar en það eru alltaf lið að senda útsendara á leikina. Maður kannast við nokkur nöfn en ég veit aldrei hvort að þetta sé alvöru áhugi eða ekki," sagði Björn Bergmann brosandi við sjónvarpsmann TV2 sem í kjölfarið spurði íslenska landsliðsframherjann af hverju hann gæfi svo fá færi á sig við fjölmiðla.

„Ég kann vel við mig fyrir framan myndavélarnar en mér líkar bara ekki við þig," sagði Björn Bergmann hlæjandi við sjónvarpsmanninn en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×