Fótbolti

Dortmund missti niður 2-0 forystu og tapaði stigum | Gott fyrir Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Borussia Dortmund tapaði dýrmætum stigum í kvöld í baráttunni við Bayern München um þýska meistaratitilinn í fótbolta þegar liðið gerði 4-4 jafntefli á heimavelli á móti Stuttgart. Dortmund missti niður 2-0 forystu og lenti 2-3 undir en virtist vera að tryggja sér 4-3 sigur þegar Stuttgart skoraði jöfnunarmark í blálokin.

Dortmund var búið að vinna 10 af síðustu 11 leikjum sínum fyrir leikinn en Bayern getur nú minnkað forskot liðsins í þrjú stig með því að vinna sinn leik um helgina.

Shinji Kagawa (33. mínúta) og Kuba (49. mínútu) komu Dortmund í 2-0 forystu en Stuttgart snéri við leiknum með því að skora þrjú mörk átta mínútna kafla. Vedad Ibisevic skoraði það fyrsta en hin tvö skoraði Julian Schieber.

Mats Hummels jafnaði leikinn á 82. mínútu og það héldu örugglega allir að Ivan Perisic hefði tryggt liðinu öll stigin með því að koma liðinu í 4-3 á 87. mínútu. Christian Gentner átti hinsvegar lokaorðið þegar hann skoraði jöfnunarmark Stuttgart á lokamínútu leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×