Enski boltinn

Þjálfari Hoffenheim: Ég reikna með því að fá Gylfa aftur í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Gylfi Þór Sigurðsson hefur vakið mikla athygli fyrir frábæra frammistöðu sína í ensku úrvalsdeildinni eftir áramót og í framhaldinu hafa spekingar og fjölmiðlamenn verið að velta því fyrir sér að hann fari í stærra lið í ensku úrvalsdeildinni á næstu tímabili.

Það er samt þýska liðið Hoffenheim sem ræður örlögum íslenska landsliðsmannsins því Swansea er bara með hann í láni frá Hoffenheim. Gylfi hefur verið orðaður við stórlið eins og Manchester United og Arsenal en Ernst Tanner, íþróttastjóri Hoffenheim, kannast ekki við neinar fyrirspurnir um íslenska landsliðsmanninn.

„Það þarf einhver að hafa samband við okkur og ná einnig samkomulagi við leikmanninn sjálfan en við höfum ekki fengið nein tilboð," sagði Ernst Tanner og þjálfarinn Markus Babbel býst við að sjá Gylfa aftur þegar undirbúningstímabilið hefst.

„Hann er ennþá með samning við Hoffenheim og ég reikna með að sjá hann aftur hjá okkur í sumar," sagði Markus Babbel.

Gylfi hefur skorað fimm mörk og lagt upp þrjú í fyrstu 9 leikjum sínum með Swansea en fékk aðeins að spila sjö leiki með Hoffenheim fyrir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×