Sport

Andy Murray vill skimun fyrir hjartasjúkdómum í tennis

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Murray gefur upp á Flórída.
Murray gefur upp á Flórída. Nordic Photos / Getty Images
Tenniskappinn Andy Murray vill að keppendur í tennis og öðrum íþróttum gangist undir reglulega skimun fyrir hjartasjúkdómum. Hann segir að skylda ætti keppendur í flestum íþróttagreinum til þess að gangast undir skimun áður en þeir fá að keppa í móti. Guardian greinir frá þessu.

Murray lét þessi ummæli falla í kjölfarið á hjartastoppi Fabrice Muamba, leikmanns Bolton, um síðustu helgi. Þá hneig Muamba til jarðar í miðjum leik gegn Tottenham. Hjarta hans stöðvaðist og fór ekki að slá aftur fyrr en eftir 78 mínútna tilraun til endurlífgunar.

„Þetta hefur komið of oft fyrir. Hér í Bandaríkjunum hefur þetta gerst í körfubolta bæði á menntaskóla- og háskólastigi auk þess sem þetta hefur komið upp nokkrum sinnum í knattspyrnuleikjum," sagði Murray sem er meðal þátttakenda á Miami Masters-mótinu í Flórídafylki.

Murray, sem er í fjórða sæti heimslistans, segist sjálfur gangast reglulega undir skimun og almenna læknisskoðun. Hann hafi byrjað á því fyrir þremur árum er hann varð var við aukna tíðni atvika á borð við hjartastopp Muamba um síðustu helgi.

„Maður hefur ekki hugmynd um hversu mikið maður leggur á sjálfan sig á vellinum sökum þeirrar pressu og spennu sem fylgir atvinnumannaíþróttum í dag," sagði Murray.

Murray, sem hefur fallið úr keppni í fyrsta leik á Miami Masters undanfarin ár, lagði Alejandro Falla frá Kólumbíu í tveimur settum, 6-2 og 6-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×