Fótbolti

Íslendingar yfirheyrðir vegna sölunnar á Veigari

Veigar Páll.
Veigar Páll.
Lögregluyfirvöld í Asker og Bærum eru langt komin á veg með lögreglurannsókn sem sett var í gang vegna gruns um að ólöglega hafi verið staðið að sölu íslenska fótboltamannsins Veigars Páls Gunnarssonar.

Morten Stene segir í viðtali við Aftenposten að íslensk lögregluyfirvöld hafi aðstoðað við rannsókn málsins með því að yfirheyra íslenska aðila sem tengjast málinu.

Stene, sem starfar sem lögfræðingur í lögregluumdæminu sem rannsakar málið, vildi ekki tjá sig um hverjir þessir aðilar séu eða hvort nýjar upplýsingar hafi komið fram við þær yfirheyrslur.

Í fyrrasumar var Veigar Páll seldur frá Stabæk til Vålerenga í Osló fyrir 1 milljón nkr, eða sem nemur um 22 milljónum ísl kr. Það vakti athygli var að 16 ára gamall leikmaður Stabæk, Herman Stengel, fylgdi með í kaupunum og greiddi Vålerenga 4 milljónir nkr. fyrir Stengel eða sem nemur 88 milljónum ísl. kr.

Lögreglurannsóknin gengur út á það að sanna þá kenningu að Stabæk og Vålerenga hafi með þessum gjörningi reynt að komast hjá því að greiða franska liðinu Nancy stóran hluta af kaupverðinu.

Veigar var á sínum tíma seldur frá Stabæk til Nancy. Þar náði Veigar aldrei fótfestu og var hann keyptur á ný til Stabæk en í samningnum var ákvæði þar sem að Nancy átti rétt á 50% af kaupverðinu ef Veigar yrði seldur frá Stabæk á ný.

Saksóknari í Asker og Bærum telur að Stabæk hafi reynt að koma sér undan því að greiða Nancy um 50 milljónir kr. með þessum gjörningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×