Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík deildarmeistari | Úrslit kvöldsins

Kolbeinn Tumi Daðason í Röstinni skrifar
Grindvíkingar eru deildarmeistarar í körfuknattleik karla en liðið lagði KR í háspennuleik í Röstinni í kvöld, 87-85. Joshua Brown, leikstjórnandi KR, fékk tækifæri til þess að jafna metin af vítalínunni á lokasekúndunum í stöðunni 86-84 en setti aðeins fyrra skot sitt ofan í.

Leikurinn í Röstinni var jafn og skemmtilegur frá fyrstu mínútu. Heimamenn höfðu ákveðið frumkvæði framan af en forystan var aldrei nema örfá stig. Stigin dreifðust nokkuð bróðurlega meðal leikmanna Grindavíkur á meðan Joshua Brown fór fyrir gestunum í stigaskorun. Magnaður leikmaður sem virðist á stundum geta skorað að vild en oft á tíðum eigingjarn þegar kemur að ákvarðanatökum í sókninni.

Heimamenn leiddu 22-19 að loknum fyrsta leikhluta sem bauð meðal annars upp á risatroðslu frá Sigurði Þorsteinssyni Grindvíkingi. KR-ingar hittu aðeins úr einu af sex fyrir utan þriggja í fjórðungnum og hvort það var meðvitað eða ekki fóru þeir að sækja meira inn í teiginn í öðrum leikhluta. Það virtist skila sér ágætlega en Hreggviður Magnússon fékk stuðningsmenn KR í stúkunni á lappir með flottri troðslu um miðjan leikhlutann.

KR-ingar komust í fyrsta sinn yfir í stöðunni 28-29 með fallegri körfu frá táningnum Martin Hermannssyni. Grindvíkingar voru fljótir að koma leiknum á kunnulegt ról og leiddu með þremur stigum í hálfleik 40-37.

Þriðji leikhluti var æsilegur en um hann miðjan virtust hjólin ætla að snúast Grindvíkingum í vil. Watson setti þrist, í kjölfarið stálu Grindvíkingar boltanum og Pettinella tróð með tilþrifum. Aftur pressuðu Grindvíkingar Brown og unnu af honum boltann. Hrafn Kristjánsson, þjálfari KR, mótmælti hástöfum og uppskar tæknivillu. Á örskömmum tíma hafði staðan breyst úr 47-48 í 55-48.

KR-ingar létu þó ekki deigan síga. Þeir bættu í eftir því sem á leikhlutann leið, sóttu á körfuna og náðu fljótlega forystu. Jón Orri Kristjánsson átti frábæra innkomu undir körfuna hjá Vesturbæingum sem leiddu að fjórðunginum loknum 63-67.

Eftir jafnan lokafjórðung kom Watson heimamönnum í 80-77 með þriggja stiga skoti og þakið ætlaði af húsinu. KR-ingar gleymdu Kananum galopnum og hann þakkaði fyrir sig. Skarphéðinn Ingason svaraði á sama hátt úr galopnu færi. Staðan 80-80 og engin leið að spá fyrir um framhaldið.

Hreggviður kom KR þremur yfir 84-81 og rúm mínúta eftir. Aftur setti Watson þrist, nú undir pressu, og staðan jöfn. KR-ingar náðu ekki almennilegu skoti í sinni sókn og brutu í kjölfarið á Bullock.

Bullock setti bæði skotin ofan í og heimamenn með tvö stig á KR, 86-84. Grindvíkingar brutu viljandi á Brown þegar átta sekúndur voru eftir og KR þurfti að stilla upp á nýtt í síðustu sókn.

Brown fékk boltann í hendurnar, keyrði að körfunni og brotið á honum í skotinu. Hann skoraði aðeins úr fyrra skoti sínu og sigurinn var heimamanna og deildarmeistaratitillinn um leið. J'Nathan Bullock bætti við stigi af vítalínunni þegar ein sekúnda lifði leiks. Lokatölurnar 87-85.

Bæði lið eiga hrós skilið fyrir flottan körfubolta í kvöld. Stigaskor var töluvert dreifðara hjá heimamönnum en gengur og gerist enda Watson og Bullock hvor um sig vanir því að salla niður stigunum. Liðsandinn virðist frábær hjá heimamönnum sem hafa farið á kostum í vetur og langlíklegasta liðið til að fara alla leið eins og staðan er núna.

Það verður ekki tekið af KR-ingum að þeir spiluðu góðan leik. Undirritaður sá viðureign þeirra í Keflavík fyrir skömmu og var allt annað að sjá til liðsins. Leikmenn unnu sem einn þótt Joshua Brown hafi á köflum farið sínar eigin leiðir. Heilt yfir átti hann þó flottan leik eins og flestir KR-ingarnir sem minntu á sig í kvöld.

Að lokum verður að minnast á vítanýtingu beggja liða sem var hlægileg eða aðeins rúmlega 50 prósent. Shaquille O'Neal er einn fárra sem hefði verið stoltur af nýtingu sem þessari.

Grindavík-KR 87-85 (22-19, 18-18, 23-30, 24-18)

Grindavík: Giordan Watson 25/4 fráköst, J'Nathan Bullock 23/9 fráköst, Ryan Pettinella 9/4 fráköst, Þorleifur Ólafsson 9, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/6 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 5/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 3, Björn Steinar Brynjólfsson 3, Páll Axel Vilbergsson 2/7 fráköst, Þorsteinn Finnbogason 0, Ómar Örn Sævarsson 0, Ármann Vilbergsson 0.

KR: Joshua Brown 21/4 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Hreggviður Magnússon 14/7 fráköst, Finnur Atli Magnusson 11/6 fráköst, Dejan Sencanski 9, Martin Hermannsson 8, Skarphéðinn Freyr Ingason 8, Robert Lavon Ferguson 7/6 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 4/4 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 3, Darri Freyr Atlason 0, Páll Fannar Helgason 0, Björn Kristjánsson 0.

Fjölnir-Þór Þorlákshöfn 86-105 (38-23, 15-34, 18-22, 15-26)

Fjölnir: Calvin O'Neal 26/4 fráköst/5 stoðsendingar, Nathan Walkup 19, Arnþór Freyr Guðmundsson 13/9 fráköst, Jón Sverrisson 13/10 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 11/4 fráköst, Hjalti Vilhjálmsson 3, Trausti Eiríksson 1, Haukur Sverrisson 0, Tómas Daði Bessason 0, Daði Berg Grétarsson 0, Gunnar Ólafsson 0, Gústav Davíðsson 0.

Þór Þorlákshöfn: Matthew James Hairston 28/14 fráköst/8 varin skot, Darrin Govens 25/5 fráköst/6 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 21, Darri Hilmarsson 13/7 fráköst, Blagoj Janev 9, Baldur Þór Ragnarsson 9, Bjarki Gylfason 0, Þorsteinn Már Ragnarsson 0, Vilhjálmur Atli Björnsson 0, Emil Karel Einarsson 0, Erlendur Ágúst Stefánsson 0.

ÍR-Valur 102-95 (29-14, 16-26, 34-24, 23-31)

ÍR: Robert Jarvis 29/7 fráköst, Rodney Alexander 24/8 fráköst, Nemanja Sovic 13, Þorvaldur Hauksson 10, Kristinn Jónasson 7, Níels Dungal 6, Hjalti Friðriksson 6/4 fráköst, Eiríkur Önundarson 5/4 fráköst, Ellert Arnarson 2, Friðrik Hjálmarsson 0, Ragnar Bragason 0.

Valur: Birgir Björn Pétursson 27/6 fráköst, Marvin Andrew Jackson 21/7 fráköst, Ragnar Gylfason 19/6 fráköst, Snorri Þorvaldsson 8/5 fráköst, Alexander Dungal 6, Hamid Dicko 6, Ágúst Hilmar Dearborn 4, Kristinn Ólafsson 2, Benedikt Blöndal 2/4 fráköst, Sigurður Skúli Sigurgeirsson 0, Hlynur Logi Víkingsson 0.

J'Nathan Bullock: Fögnum með því að spila Playstation„Þetta er frábær tilfinning. Við getum fagnað örlítið en við eigum mikla vinnu fyrir höndum. Það er úrslitakeppnin sem telur. Þetta er samt flottur árangur," sagði J'Nathan Bullock leikmaður Grindavíkur sem sagði andrúmsloftið í kvöld hafa minnt hann á úrslitakeppni.

„Bæði lið gáfu allt sitt og meira er ekki hægt að biðja um af okkur leikmönnunum," sagði Bullock sem setti 23 stig.

Bullock elskar lífið í Grindavík.

„Fólkið, liðsfélagar og þjálfarar eru vingjarnlegir og það er fjölskylduandrúmsloft. Það er alltaf gott að spila í svoleiðis umhverfi," sagði Bullock sem kippir sér ekki upp við veðrið. Hann kunni á kuldann enda frá Michigan-ríki í Bandaríkjunum.

Um möguleika Grindavíkur í úrslitakeppninni sagði Bullock:

„Við eigum góða möguleika og ætlum okkur langt. Við styðjum hver við annan, það er góð eining og óvenjulegt hversu hratt liðið hefur slípast saman," sagði Bullock sem ætlaði að telja blaðamanni trú um að liðsfélagarnir ætluðu að fagna titlinum með því að spila saman tölvuleiki.

„Það verður bara Playstation og svo heim að einbeita sér að körfuboltanum," sagði Bullock sem hló þegar blaðamaður gekk á hann. Eitthvað meira hlyti að standa til.

„Ég segi ekkert meira," sagði Bullock og skellihló.

Hrafn Kristjánsson: Getum varið Íslandsmeistaratitilinn„Hryggnum var nánast þrykkt úr liðinu í upphafi tímabils og það hefur ekki gengið eins vel og við ætluðum okkur að pússa saman mannskapinn. Þegar mest liggur við breytist lið í einstaklinga og þannig hefur það verið en ekki í þessum leik. Nú stóð liðið saman og við getum byggt á þessum leik," sagði Hrafn Kristjánsson, svekktur með úrslitin en stoltur af leikmönnum sínum.

„Þetta er að koma. Við höfum rætt um þetta og strákarnir vita þetta. Ef við gerum þetta saman erum við skeinuhættir, öðruvísi lið en í fyrra en getum gert flotta hluti," sagði Hrafn sem segir liðið stefna á annað sæti deildarinnar.

„Við höfum gert okkur það ansi erfitt. Við settum Keflvík í bílstjórasætið þegar við töpuðum fyrir þeim í Keflavík. Við ætlum að taka þessa fjóra leiki sem eftir eru og gefa okkur eins góða möguleika og hægt er. Það er stór munur á að fara í öðru og þriðja sæti í úrslitakeppnina miðað við hvernig landið liggur fyrir neðan," sagði Hrafn.

Hrafn segir KR-inga vel geta varið Íslandsmeistaratitil sinn og liðið sé á réttri leið.

„Við vorum með ákveðnar áherslur í kvöld. Ætluðum að spila maður á mann allan leikinn og láta þá hafa fyrir þessu. Í hvert einasta skipti sem við gleymdum þessum áherslum skoruðu þeir. Það er mjög þægilegt fyrir okkur að geta einmitt skoðað það. Við byggjum á þessu," sagði Hrafn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×