Körfubolti

Keflvíkingar búnir að reka Kristoffer Douse

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristoffer Douse sést hér fagna í Höllinni.
Kristoffer Douse sést hér fagna í Höllinni. Mynd/Valli
Miðherjinn Kristoffer Douse hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Keflvíkinga en karfan.is segir frá því að körfuknattleiksdeild Keflavíkur hafi sagt upp samningi hans. Douse stoppaði stutt við á Íslandi því hann kom til liðsins í lok janúar.

Kristoffer Douse byrjaði á bekknum í sínum síðasta leik þegar Keflavík vann 101-100 sigur á Snæfell en þar var einmitt íslenski miðherjinn Almar Stefán Guðbrandsson sem skoraði sigurstigið í leiknum.

Kristoffer Douse skoraði 9,5 stig og tók 4,2 fráköst að meðaltali á 20 mínútum í þeim sex deildarleikjum sem hann lék með Keflavík. Douse var með 10 stig og 5 fráköst í sigrinum á Tindastól í bikarúrslitaleiknum.

Kristoffer Douse var með kanadískt og breskt vegabréf og geta Keflvíkingar því ekki fengið mann í staðinn fyrir hann því félagsskiptaglugginn er lokaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×