Fótbolti

Nordsjælland fyrsta danska liðið til að spila á gervigrasi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Danska úrvalsdeildarliðið FC Nordsjælland hefur ákveðið að skipta grasvelli sínum út fyrir gervigras en heimavöllur liðsins, Farum Park, verður orðinn upphitaður gervigrasvöllur í sumarlok. Nordsjælland hefur fengið leyfi danska knattspyrnusambandsins til að spila leiki sína á gervigrasi frá og með tímabilinu 2012-13.

Nordsjælland-liðið verður þá fyrsta danska liðið sem spilar heimaleiki sína á gervigrasi. Þeir fylgja nú í fótspor margra félaga í Finnlandi, Svíþjóð og Noregi. Ekki má heldur gleyma Íslandi en Stjarnan hefur spilað á gervigrasi siðustu árin.

Gervigrasvöllurinn mun kosta um níu milljónir danskra króna sem gera rúmar 200 milljónir íslenskra króna. Félagið mun borga þrjár milljónir en Furesö-sveitarfélagið mun borga stærsta hlutann af kostnaði vallarins.

Kjartan Henry Finnbogason, Kristinn Steindórsson og Jón Daði Böðvarsson æfðu allir með danska liðinu í vetur en enginn þeirra samdi við liðið.

FC Nordsjælland er eins og er í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar og í harðri baráttu við Íslendingaliðið FC Kaupmannahöfn um danska meistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×