Körfubolti

Fyrsti útisigur ÍR-inga á árinu 2012 | Unnu Stjörnuna í Ásgarði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Sverrisson, þjálfari ÍR, fagnaði í kvöld.
Gunnar Sverrisson, þjálfari ÍR, fagnaði í kvöld. Mynd/Valli
ÍR-ingar voru búnir að tapa öllum fjórum útileikjum sínum á árinu 2012 þegar þeir sóttu sigur í Garðabæinn í 19. umferð Iceland Express deild karla í kvöld. ÍR vann leikinn 102-98 eftir að Stjörnumenn sóttu talsvert að þeim undir lok leiksins.

Robert Jarvis og Rodney Alexander voru báðir að spila vel í kvöld, Jarvis var með 36 stig og Alexander bætti við 25 stigum og 11 fráköstum. Renato Lindmets skoraði 27 stig fyrir Stjörnuna.

ÍR-ingar byrjuðu mjög vel og voru komnir í 7-0 eftir rúmar tvær mínútur. ÍR hélt forystunni út leikhlutann og var fjórum stigum yfir við lok hans, 22-18.

Stjörnumenn skoruðu sjö fyrstu stig annars leikhlutans og tóku frumkvæðið. Jovan Zdravevski skoraði 8 stig á fyrstu 4 mínútum leikhlutans og hjálpaði sínum mönnum að komast fimm stigum yfir, 32-27.

ÍR-ingar áttu sinn ás í Robert Jarvis sem fór í gang og undir hans forystu breytti ÍR-liðið stöðunni úr 34-29 í 34-44 á rúmum tveimur mínútum. ÍR var síðan 48-43 yfir í hálfleik og Jarvis var kominn með 20 stig þar af skoraði hann fimmtán þeirra í öðrum leikhluta.

Jarvis skoraði fimm fyrstu stig seinni hálfleiksins og kom ÍR tíu stigum yfir, 53-43. ÍR-liðið vann þriðja leikhlutann 23-15 og var því með þrettán stiga forystu fyrir lokaleikhlutann, 71-58.

ÍR var 90-77 yfir þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en þá skoruðu Stjörnumenn tólf stig gegn einu og minnkuðu muninn í tvö stig, 89-91. Justin Shouse skoraði 9 stig á þessum kafla en hann var aðeins með 6 stig á fyrstu 37 mínútum leiksins.

ÍR-ingar héldu hinsvegar út og héldu lífi í baráttu sinni fyrir sæti inn í úrslitakeppnina. ÍR er nú tveimur stigum á eftir liðunum í sjöunda og áttunda sæti.



Stjarnan-ÍR 98-102 (18-22, 25-26, 15-23, 40-31)

Stjarnan: Renato Lindmets 27/10 fráköst, Keith Cothran 20/5 stolnir, Justin Shouse 17/11 stoðsendingar, Jovan Zdravevski 13, Fannar Freyr Helgason 12/13 fráköst, Dagur Kár Jónsson 5, Sigurjón Örn Lárusson 2, Guðjón Lárusson 2.

ÍR: Robert Jarvis 36/5 fráköst, Rodney Alexander 25/11 fráköst, Nemanja  Sovic 13, Eiríkur Önundarson 11/5 stoðsendingar, Kristinn Jónasson 6/3 varin skot, Hjalti Friðriksson 6/4 fráköst, Níels Dungal 5/4 fráköst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×