Sport

Colts vill halda Manning en semja upp á nýtt

Jim Irsay, eigandi NFL-liðsins Indianapolis Colts, hefur gefið það út að hann vilji halda Peyton Manning hjá félaginu. Hann segir þó ekki koma til greina að halda Manning á þeim samningi sem hann er með.

Manning á von á því að fá bónus frá Colts upp á litlar 28 milljónir dollara í mars en félagið getur sagt þeim samningi upp fyrir mánaðarmót. Það mun félagið gera ef Manning fer ekki fram á það sjálfur fyrir þann tíma.

Mikil óvissa er um hvort Manning geti spilað aftur en hann er alvarlega meiddur og lék ekkert í vetur. Irsay vill að Manning taki ákvörðunina sjálfur og efast ekki um að Manning skilji af hverju félagið vilji ekki heiðra núverandi samning við þessar aðstæður.

"Ég vil að Peyton taki ákvörðunina. Hann veit miðað við þessar bónusgreiðslur að við þurfum að semja upp á nýtt. Ef hann getur spilað aftur þá vil ég að hann verði hjá okkur. Nýr samningur verður þó að taka mið af breyttum aðstæðum," sagði Irsay.

Fastlega er búist við því að Colts muni velja leikstjórnandann Andrew Luck fyrstan í nýliðavalinu og Irsay sér fyrir sér að Manning geti alið strákinn upp.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×