Körfubolti

Stuðningsmenn Lakers hafa ekki mikla trú á liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/AP
Los Angeles Lakers hefur tapað 9 af 22 fyrstu leikjum sínum á NBA-tímabilinu til þessa og er aðeins með sjötta besta árangurinn í Vesturdeildinni. Stuðningsfólk liðsins er ekki bjartsýnt á góðan árangur á þessu tímabili en nú er að verða síðasti möguleikinn fyrir Kobe Bryant að gera eitthvað áður en hann verður of gamall.

Uppkoma Los Angeles Clippers með tilkomu Chris Paul og Chauncey Billups þýðir að "litla" liðið í Los Angeles er með betri árangur og þykir mun líklegra til að vinna titilinn, eitthvað sem þótti óhugsandi fyrir einu ári síðan.

Í nýrri könnun hjá Los Angeles Times blaðinu þá kemur í ljós að 33 prósent stuðningsmanna Lakers spá því að liðið detti út úr fyrstu umferð í úrslitakeppninni og aðeins fimmtán prósent trúa því að Lakers-liðið geti orðið NBA-meistari.

Lakers komst í undanúrslit Vesturdeildarinnar í fyrra en tapaði þar 0-4 fyrir verðandi NBA-meisturum Dallas Mavericks. Það tap var mikið áfall fyrir Lakers og Mike Brown tók síðan við þjálfun liðsins í sumar af Phil Jackson.

Flestir stuðningsmenn Lakers kvarta yfir leikstórandaleysi eða 44 prósent en það kemur ekki mikið á óvart að 73 prósent þeirra telji Kobe Bryant vera aðalvopn liðsins.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×