Fótbolti

Fimm mörk á fjórum dögum hjá Llorente

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Llorente er sterkur skallamaður.
Fernando Llorente er sterkur skallamaður. Mynd/Nordic Photos/Getty
Fernando Llorente, leikmaður Athletic Bilbao og spænska landsliðsins, hefur verið sjóðheitur í þessari viku og skoraði tvö mörk fyrir framan landsliðsþjálfarann Vicente Del Bosque þegar Athletic Bilbao sló þriðju deildarliðið CD Mirandés úr úr bikarnum í gær.

Fernando Llorente, sem er 27 ára og 195 sm framherji, kórónaði þá frábæra frammistöðu sína í tveimur útileikjum með aðeins fjögurra daga millibili. Hann skoraði nefnilega þrennu á móti Rayo Vallecano um helgina. Í báðum leikjum vann Bilbao með minnsta mun og þurfti því nauðsynlega á öllum mörkum hans að halda. Llorente skoraði þrjú af þessum fimm mörkum með skalla.

Með sama áframhaldi mun Llorente væntanlega taka stöðu hins meidda David Villa í spænska landsliðinu á Evrópumótinu í Póllandi og Úkraínu í sumar. Llorente er þar í samkeppni við Roberto Soldado hjá Valencia sem einnig hefur skorað mikið á þessu tímabili. Fernando Torres hjá Chelsea er aftur á móti ekki að koma vel út í samanburðinum við þessa tvo sjóheitu sóknarmenn.

Fernando Llorente er núna búinn að skora 16 mörk í 27 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili þar af 11 mörk í 17 deildarleikjum. Soldado er búinn að skora 20 mörk í 29 leikjum þar af 12 mörk í 18 deildarleikjum.

Argentínumaðurinn Lionel Messi og Portúgalinn Lionel Messi er reyndar í nokkrum sérflokki þegar kemur að markaskorun á Spáni en það er önnur saga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×