Fótbolti

Bild: Þjálfari Hoffenheim verður rekinn og Babbel tekur við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stanislawski á leiknum í gær.
Stanislawski á leiknum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Ekkert gengur hjá þýska liðinu Hoffenheim þessa dagana en liðið féll úr leik í þýsku bikarkeppninni í gær eftir að tap fyrir B-deildarliðinu Greuter Fürth á heimavelli í gær, 1-0.

Holger Stanislawski er þjálfari liðsins en liðið hefur unnið aðeins einn leik í síðustu tíu í deildinni. Stanislawski hefur verið mikið gagnrýndur í þýskum fjölmiðlum og eigandi félagsins, Dietmar Hopp, er líka farinn að efast um að hann sé rétti maðurinn fyrir starfið.

Hopp hefur furðað sig á því að Stanislawski hafi leyft Gylfa Þór Sigurðssyni að fara frá félaginu á láni til Swansea í Englandi. Þar hefur Gylfi slegið í gegn og er nú orðaður við önnur lið, til að mynda Hamburg fyrir um milljarð króna.

Þýska dagblaðið Bild segir að flest bendi til þess að Stanislawski verði látinn fara nú í vikunni og að Markus Babbel, fyrrum landsliðsmaður og leikmaður Liverpool, muni taka við liðinu.

Stanislawski virðist þó vinsæll hjá bæði leikmönnum og stuðningsmönnum Hoffeneheim. Stuðningsmenn sungu honum til heiðurs á leiknum í gær, þrátt fyrir tapið.

Stanislawski hefur gagnrýnt Gylfa og segir að hann hafi ekki lengur áhuga á að spila með Hoffenheim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×