Fótbolti

Barcelona sló út Real Madrid | 2-2 jafntefli í frábærum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dani Alves skoraði frábært mark í kvöld.
Dani Alves skoraði frábært mark í kvöld. Mynd/AP
Barcelona er komið áfram í undanúrslit spænska Konungsbikarsins eftir að liðið sló erkifjendurna úr Real Mardid út úr keppninni í kvöld. Liðin gerðu 2-2 jafntefli í frábærum leik á Nou Camp í kvöld en Barca fór áfram á 2-1 sigri á Santiago Bernabéu í síðustu viku.

Barcelona komst í 2-0 og allt stefndi í öruggan sigur en Real Madrid kom til baka í seinni hálfleik en tókst ekki að skora þriðja markið sem hefði komið liðinu áfram.

Real Madrid hefur því ekki náð að vinna Barcelona á þessu tímabili en liðin voru að mætast í fimmta sinn. Barcelona hefur unnið þrjá leiki og tveir leikir hafa endað með jafntefli.

Gonzalo Higuain fékk nokkur góð færi í fyrri hálfleiknum en Real Madrid tókst ekki að skora í fyrri hálfleiknum og var síðan refsað fyrir það skömmu fyrir leikhlé.

Barcelona skoraði tvö mörk á lokamínútum fyrri hálfleiksins og Barca var því komið í 4-1 samanlagt. Pedro Rodriguez skoraði fyrra markið á 43. mínútu eftir sendingu Lionel Messi og það seinna gerði Dani Alves með frábæru skoti af 30 metra færi.

Mark Dani Alves hafði komið í kjölfarið á aukaspyrnu sem var dæmt fyrir gróft brot Lassana Diarra á Lionel Messi. Xavi skaut í vegginn úr aukaspyrnunni og Dani Alves afgreiddi frákastið í markið.

Cristiano Ronaldo minnkaði muninn í 2-1 á 68. mínútu eftir að hafa fengið sendingu frá Mezut Özil og labbað framhjá Carlos Puyol. Varamaðurinn Karim Benzema jafnaði metin fjórum mínútum síðar eftir að hafa fengið langa sendingu frá José Callejón.

Þarna var því komin óvænt spenna í leikinn því Real Madrid þurfti bara eitt mark í viðbót til að komast áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Sergio Ramos fékk sitt annað gula spjald fyrir brot á Sergi Busquets á 89. mínútu og Real Madrid var vþí manni færri á lokamínútunum. Real Madrid tókst ekki að skora þriðja markið og Barcelona fagnaði sæti í undanúrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×