Körfubolti

Þórsarar unnu ÍR-inga í fjórða sinn í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benedikt Guðmundsson og félagar hafa gott tak á ÍR-liðinu.
Benedikt Guðmundsson og félagar hafa gott tak á ÍR-liðinu. Mynd/Hjalti Vignisson
Þórsarar úr Þorlákshöfn unnu tólf stiga sigur á ÍR, 88-76, í leik liðanna í 13. umferð Iceland Express deildar karla í körfubolta sem fram fór í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld.

Þetta var fjórði sigur Þórsliðsins á ÍR í vetur en liðið vann með níu stigum í fyrri leiknum í Seljaskólanum og síðan báða leiki liðanna í Lengjubikarnum.

Blagoj Janev skoraði 27 stig fyrir Þór, Darri Hilmarsson var með x19 stig og Matthew Hairston skoraði 16 stig og tók 16 fráköst. Nemanja Sovic skoraði 19 stig fyrir ÍR, James Bartolotta var með 15 stig og Hjalti Friðriksson skoraði 12 stig og tók 12 fráköst.

Þórsarar byrjuðu aðeins betur og voru 13-8 yfir eftir fimm mínútna leik en ÍR-ingar voru ekki langt undan og voru komnir með þriggja stiga forskot, 20-17, við lok fyrsta leikhlutans.

Þórsarar voru sterkari í upphafi annars leikhluta með Matthew Hairston í fararbroddi. Þór vann leikhlutann 32-26 og var þremur stigum yfir í hálfleik, 49-46. Hairston var með 14 stig og 8 fráköst í leikhlutanum.

Þórsarar bættu við forskot sitt í þriðja leikhlutanum og voru komnir með tólf stiga forskot, 70-58, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. ÍR-iungar enduðu leikhlutann hinsvegar á 6-0 spretti og munurinn var bara sex stig, 70-64, fyrir lokaleikhlutann.

Þórsarar héldu haus, juku aftur muninn og lönduðu nokkuð sannfærandi sigri í fjórða leikhlutanum.



Þór Þorlákshöfn-ÍR 88-76 (17-20, 32-26, 21-18, 18-12)

Þór Þorlákshöfn: Blagoj Janev 27/5 fráköst, Darri Hilmarsson 19/5 fráköst, Matthew James Hairston 16/16 fráköst, Darrin Govens 12/5 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 8, Guðmundur  Jónsson 3, Emil Karel Einarsson 2, Þorsteinn Már Ragnarsson 1.

ÍR: Nemanja  Sovic 19, James Bartolotta 15, Hjalti Friðriksson 12/12 fráköst, Þorvaldur Hauksson 8, Ellert Arnarson 7/5 stoðsendingar, Kristinn Jónasson 7/5 fráköst, Níels Dungal 4/4 fráköst, Eiríkur Önundarson 2, Húni Húnfjörð 2/4 fráköst.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×