Fótbolti

Barcelona vann enn einn sigurinn á Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carles Puyol fagnar hér marki sínu.
Carles Puyol fagnar hér marki sínu. Mynd/Nordic Photos/Getty
Barcelona lenti 0-1 undir en vann engu að síður 2-1 sigur á Real Madrid í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum spænska Konungsbikarsins en leikurinn í kvöld fór fram á heimavelli Real Madrid.

Real Madrid hefur því ekki enn tekist að vinna Barcelona á þessu tímabili en Barcelona vann þarna erkifjendur sínar í þriðja sinn en fjórði leikurinn endaði síðan með jafntefli. Næstu tveir leikir liðanna fara síðan fram á Nývangi í Barcelona þar á meðal seinni leikurinn í bikarnum í næstu viku.

Cristiano Ronaldo kom Real Madrid í 1-0 á 11. mínútu eftir að hafa fengið boltann frá Karim Benzema og leikið skemmtilega á Gerard Pique. Skömmu síðar átti Alexis Sanchez skalla í slána en Real Madrid var 1-0 yfir í hálfleik.

Það tók Börsunga aðeins þrjár mínútur í seinni hálfleik að jafna leikinn en fyrirliðinn Carles Puyol skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu frá varafyrirliðanum Xavi. Eric Abidal skoraði síðan sigurmark Barcelona á 78. mínútu eftir að hafa fengið sendingu frá Lionel Messi.

Þetta var þriðji heimaleikur Real Madrid í röð á móti Barca á tímabilinu þar sem liðið kemst yfir í upphafi leiks en tekst ekki að landa sigri. Real komst líka í 1-0 í síðasta deildarleik en tapaði 1-3 og liðin gerðu 2-2 jafntefli í Meistarakeppninni á Spáni í haust eftir að Real komst í 1-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×