Körfubolti

Björn Steinar tryggði Grindavík sigur í Toyota-höllinni í Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björn Steinar Brynjólfsson.
Björn Steinar Brynjólfsson.
Björn Steinar Brynjólfsson tryggði Grindavík 86-85 sigur á Keflavík í 12. umferð Iceland Express deildar karla í körfubolta í kvöld með því að skora þriggja stiga körfu skömmu fyrir leikslok. Grindvíkingar halda því fjögurra stiga forskoti á toppnum og eru nú komnir með sex stigum meira en Keflavík sem er í 3. sætinu.

Keflvíkingar léku án leikstjórnandans Steven Gerard Dagustino sem er farinn frá félaginu og á sama tíma var Ryan Pettinella búinn að bætast við hópinn hjá Grindavík. Leikurinn var sveiflukenndur og úrslitin réðust síðan ekki fyrr en á lokaskoti leiksins.

J´Nathan Bullock skoraði 33 stig og tók 19 fráköst fyrir Grindavík og þeir Giordan Watson og Jóhanni Árni Ólafsson voru báðir með 15 stig. Magnús Þór Gunnarsson skoraði 27 stig fyrir Keflavík og Charles Michael Parker var með 24 stig.

Staðan var jöfn, 25-25, eftir fyrsta leikhlutann en í öðrum leikhluta skiptust liðin á því að eiga frábæra kafla. Keflvíkingar skoruðu 18 af fyrstu 20 stigum annars leikhlutans og komust í 43-27 þegar tæpar sex mínútur voru til hálfleiks. Grindvíkingar svöruðu með því að skora 21 stig í röð og komast í 48-43 en Grindavík var síðan 48-45 yfir í hálfleik.

Grindavík var 55-51 yfir eftir rúmlega fjögurra mínútna leik í þriðja leikhlutanum en Keflvíkinga skoruðu þá átta stig í röð og komust í 59-55. Grindavíkurliðið svaraði með sex stigum í röð og var síðan tveimur stigum yfir, 62-60, fyrir lokaleikhlutann.

Grindvíkingar voru með frumkvæðið í fjórða leikhluta en Keflvíkingar gáfu sig ekki og komust yfir í 73-73. Grindvíkingar settu þá enn á ný í fimmta gír og voru fljótir að komast aftur fimm stigum yfir í 78-73.

Keflvíkingar unnu enn á nú upp muninn og Charles Michael Parker kom þeim í 85-83 þegar 15 sekúndur voru eftir. Björn Steinar skoraði hinsvegar þriggja stiga körfu eftir stoðsendingu frá Giordan Watson og tryggði Grindavíkurliðinu sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×