Fótbolti

82 prósent stuðningsmanna Hoffenheim ósáttir við brotthvarf Gylfa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Samkvæmt könnun sem þýska dagblaðið Rhein-Neckar Zeitung framkvæmdi á heimasíðu sinni voru 82 prósent stuðningsmanna Hoffenheim ósáttir við að Gylfi Þór Sigurðsson hafi verið lánaður til Swansea í ensku úrvalsdeildinni.

Samkvæmt frétt blaðsins eru 82 prósent þátttakenda þeirra skoðunnar að brotthvarf Gylfa sé slæmt fyrir liðið. Aðrir telja að hann eigi ekki lengur erindi í liðið.

Það er því mikill meirihluti stuðningsmannanna sem harma það að Gylfi sé farinn í bili að minnsta kosti, en hann er þó samningsbundinn félaginu til 2014.

„Það er skelfilegt að Gylfi sé farinn. Hann er góður leikmaður sem mér líkaði mjög vel við. Ég neita því ekki að þátttaka hans á EM U-21 liða í sumar og meiðslin hans hafi sett stórt strik í reikninginn hjá honum en ég hafði fulla trú á því að hann kæmi sterkur til baka eftir vetrarfríið. Þá fengjum við gamla góða „Sig" aftur. En nú eru Englendingarnir ánægðir en við munum sakna hans," skrifaði einn stuðningsmanna Hoffenheim á heimasíðuna.

„Gylfi var besti leikmaður okkar á síðasta tímabili - því megum við ekki gleyma," skrifaði annar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×