Körfubolti

Justin tryggði Stjörnunni dramatískan sigur í Grafarvogi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin Shouse.
Justin Shouse. Mynd/Anton
Justin Shouse var hetja Stjörnumanna í kvöld þegar hann skoraði sigurkörfuna nokkrum sekúndum fyrir leikslok þegar Garðabæingar unnu Fjölni 78-77. Stjarnan var ellefu stigum undir þegar aðeins tæpar sjö mínútur voru eftir en vann lokakafla leiksins 18-6.

Justin Shouse skoraði 21 stig fyrir Stjörnuna í kvöld en hann skoraði meðal annars fjögur síðustu stig liðsins. Guðjón Lárusson var með 18 stig og Fannar Freyr Helgason skroaði 13 stig.

Nathan Walkup skoraði 28 stig og tók 11 fráköst fyrir Fjölni í kvöld og Jón Sverrisson var með 15 stig og 14 fráköst.

Fjölnismenn unnu 3 af síðustu 4 leikjum sínum á árinu 2011 og virtust ætla að halda áfram á sigurbrautinni þar til að liðið gaf eftir á lokasprettinum í kvöld.

Stjarnan komst í 9-2 í upphafi leiks en Fjölnir var 15-14 yfir eftir fyrsta leikhluta og var með fimm stiga forskot í hálfleik, 44-39. Fjölnir náði 11 stiga forskoti, 71-60, þegar tæpar sjö mínútur voru til leiksloka en það nægði samt ekki til að landa sigrinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×