Körfubolti

Hvað gera nýju KR-ingarnir á móti Grindvíkingum í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Stefán
Það verður stórleikur í DHL-höllinni í kvöld þegar KR og Grindavík mætast í sextán liða úrslitum Powerade-bikarsins í körfubolta. Þarna mætast liðin sem mættust í bikarúrslitaleiknum í fyrra en KR hafði þá betur og varð bikarmeistari í fyrsta sinn í tuttugu ár. Leikurinn hefst klukkan 19.15.

Grindvíkingar hafa verið á miklu skriði það sem af er vetrar, eru á toppi Iceland Express deildarinnar og unnu bæði Lengjubikarinn og Meistarakeppni KKÍ fyrir áramót. Grindavík vann 26 stiga sigur á KR þegar liðið mætti í DHL-höllina á dögunum og hefur unnið alla fjóra leiki sína í húsinu á tímabilinu.

Grindavík vann einnig dramatískan 87-85 sigur á KR í Meistarakeppninni í októberbyrjun og vann síðan Þór Þorlákshöfn og Keflavík á úrslitahelgi Lengjubikarsins sem fór fram í DHL-höll þeirra KR-inga í nóvember.

KR-ingar tóku liðið sitt í gegn um áramótin og tefla fram þremur nýjum erlendu leikmönnum í leiknum í kvöld. Það verður fróðlegt að sjá hvað nýju KR-ingar gera á móti toppliði Grindavíkur í kvöld og hvort sigurganga Grindavíkur heldur áfram í DHL-höllinni.

Bakvörðurinn Joshua Brown var með 26 stig í fyrsta leik sínum með KR þegar liðið vann átta stiga útisigur á Haukum en Robert Lavon Ferguson var þá með 17 stig og 6 fráköst. Serbneska skyttan Dejan Sencanski spilaði ekkert í þeim leik en verður með í kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×