Körfubolti

NBA: New Orleans endaði átta leikja sigurgöngu San Antonio

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manu Ginobili og félagar í San Antonio Spurs töpuðu illa í nótt.
Manu Ginobili og félagar í San Antonio Spurs töpuðu illa í nótt. Mynd/AP

New Orleans Hornets vann sinn áttunda leik í röð í NBA-deildinni í körfubolta í nótt og endaði um leið átta leikja sigurgöngu San Antonio Spurs, liðsins með besta árangurinn í deildinni.

Kevin Durant tryggði Oklahoma City sigur á New York með flautukörfu, Washington vann Boston, Dirk Nowitzki tryggði Dallas sigur á New Jersey sex sekúndum fyrir leikslok og 38 stig frá LeBron James hjálpuðu Miami að enda fjögurra leikja taphrinu.

David West var með 18 stig og 10 fráköst þegar New Orleans Hornets vann 96-72 heimasigur á San Antonio Spurs. Yfirburðir Hornets-liðsins voru miklir því liðið komst mest 31 stigi yfir í leiknum. Marcus Thornton skoraði 18 stig fyrir New Orleans og Trevor Ariza skoraði 15 stig en þeir voru báðir með fjóra þrista í leiknum.

San Antonio var búið að vinna átta leiki í röð og aðeins búið að tapa sjö leikjum á tímabilinu en þetta var í annað sinn í vetur sem liðið tapar fyrir New Orleans. Tony Parker skoraði 10 stig fyrir San Antonio og var eini byrjunarliðsmaðurinn sem skoraði yfir tíu stig en Tiago Splitter var stigahæstur með 11 stig.

Liðsfélagar Kevin Durant fagna honum eftir sigurkörfuna í nótt.Mynd/AP

Kevin Durant tryggði Oklahoma City Thunder 101-98 sigur á New York Knicks með þriggja stiga körfu úr þröngri stöðu um leið og leiktíminn rann út. Durant skoraði 30 stig og tók 12 fráköst í leiknum en Oklahoma City vann upp sex stiga forskot New York á síðustu þremur mínútunum.

Russel Westbrook skoraði 28 stig þar af 14 þeirra af vítalínunni. Danilo Gallinari var með 23 stig fyrir New York og Amare Stoudemire var með 18 stig og 12 fráköst.

John Wall skoraði stóran þrist á lokamínútunni, spjaldið ofan í, þegar Washington Wizards vann óvæntan 85-83 sigur á Boston Celtics. Boston-liðið komst mest 16 stigum yfir í fyrsta leikhlutanum en missti leikinn frá sér.

Rashard Lewis var með 18 stig og 11 fráköst hjá Washington og þeir John Wall og JaVale McGee skoruðu báðir 16 stig. Kevin Garnett var með 17 stig fyrir Boston og Ray Allen var með 16 stig.

LeBron James var með 38 stig og 11 fráköst og Mike Miller skoraði 22 af 32 stigum sínum í öðrum leikhluta þegar Miami Heat vann 120-103 heimasigur á Toronto Raptors.

Miami endaði þar með fjögurra leikja taphrinu sína en liðið lék bæði án Dwyane Wade (mígreni) og Chris Bosh (ökklameiðsli). DeMar DeRozan skoraði 30 stig fyrir Toronto og Andrea Bargnani var með 28 stig.

Vinny Del Negro, þjálfari Los Angeles Clippers talar hér við stjörnuleikmann sinn Blake Griffin.Mynd/AP
Dirk Nowitzki tryggði Dallas Mavericks 87-86 sigur á New Jersey Nets með tveggja stiga stökkskoti sex sekúndum fyrir leikslok. Nowitzki var með 23 stig í leiknum en hitti þó aðeins úr 7 af 24 skotum. Tyson Chandler bætti við 19 stigum í fimmta sigri Dallas-liðsins í röð. Brook Lopez var með 24 stig fyrir New Jersey.

Dwight Howard var með 22 stig og 14 fráköst þegar Orlando Magic vann 118-104 sigur á Houstin Rockets. Hedo Turkoglu var með 21 stig fyrir Orlando-liðið sem stakk af í fyrri hálfleik. Chase Budinger skoraði 19 stig fyrir Houston og Kevin Martin var með 18 stig.

Blake Griffin var með 30 stig og 18 fráköst auk mikilvægrar þriggja stiga stiga körfu á lokamínútunni þegar Los Angeles Clippers vann 113-109 sigur á Golden State Warriors. Þetta var tólfti sigur Clippers-liðsins í síðustu sautján leikjum og sjöundi heimasigurinn í röð. Eric Gordon skoraði 23 stig fyrir Los Angeles Clippers en Stephen Curry var með 32 stig og 8 stoðsendingar hjá Golden State.

Cleveland réð ekki við Derrick Rose í nótt.Mynd/AP
Derrick Rose var með 24 stig þegar Chicago Bulls vann 92-79 sigur á Cleveland Cavaliers. Þetta var sextánda tap Cleveland í röð og tuttugasta tapið í röð á útivelli. Síðasti sigur liðsins kom á móti New York 18. desember síðastliðinn. Carlos Boozer og Luol Deng skoruðu báðir 20 stig fyrir Chicago.

Joe Johnson skoraði 32 stig þegar Atlanta Hawks vann 103-87 sigur á Charlotte Bobcats daginn eftir vandræðalegt tap liðsins á móti New Orleans. Josh Smith skoraði 16 stig fyrir Atlanta en D.J. Augustin var með 20 stig fyrir Charlotte.

LaMarcus Aldridge var með 25 stig og 12 fráköst þegar Portland Trail Blazers vann 97-92 sigur á Indiana Pacers. Nicolas Batum hitti úr 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum og bætti við 23 stigum. Danny Granger skoraði 24 stig í fjórða tapleik Indiana í röð.

Detroit-leikmennirnir Ben Wallace og Austin Daye voru ánægðir með gang mála í nótt.Mynd/AP
Tayshaun Prince var með 17 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar þegar Detoit Pistons vann 75-74 sigur á Phoenix Suns. Steve Nash var með 14 stig og 9 stoðsendingar hjá Phoenix, Jared Dudley skoraði 13 stig og Marcin Gortat var með 11 stig og 14 fráköst en það dugði ekki til.



Andre Iguodala
skoraði 22 stig og Lou Williams bætti við 20 stigum þegar Philadelphia 76 ers vann 96-85 heimasigur á Utah Jazz. Þetta var tólfti sigur Sixers-liðsins í síðustu fimmtán leikjum. Deron Williams var með 20 stig og 14 stoðsendingar í fjórða tapleik Utah í röð sem er lengsta taphrina liðsins í meira en ár.



Marc Gasol
var með 24 stig og 16 fráköst og Zach Randolph bætti við 16 stigum og 11 fráköstum þegar Memphis Grizzlies vann 94-81 útisigur á Milwaukee Bucks. Earl Boykins skoraði 23 stig fyrir Milwaukee.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:
LeBron James fer hér framhjá DeMar DeRozan.Mynd/AP
Charlotte Bobcats-Atlanta Hawks 87-103

New Jersey Nets-Dallas Mavericks 86-87

Washington Wizards-Boston Celtics 85-83

Detroit Pistons-Phoenix Suns 75-74

Miami Heat-Toronto Raptors 120-103

Philadelphia 76ers-Utah Jazz 96-85

Chicago Bulls-Cleveland Cavaliers 92-79

New Orleans Hornets-San Antonio Spurs 96-72

Oklahoma City Thunder-New York Knicks 101-98

Houston Rockets-Orlando Magic 104-118

Milwaukee Bucks-Memphis Grizzlies 81-94

Portland Trail Blazers-Indiana Pacers 97-92

Los Angeles Clippers-Golden State Warriors 113-109









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×