Skoðun

Naglar og lungu

Hjálmar Sveinsson skrifar
Við trúum því flest að loftið á Íslandi sé hreint og tært. Landið er fámennt og við þurfum hvorki kol né olíu til að hita húsin okkar. Hér eru kjöraðstæður. Þess vegna ætti að vera sjálfsagt að auglýsa Reykjavík sem heilsuborg, eins og gert hefur verið síðustu misserin. Þó er einn galli á gjöf Njarðar. Trúin á hreina loftið stenst ekki nánari skoðun. Mælingar sýna að loftið í Reykjavík er heilsuspillandi 20 daga á ári vegna svifryksmengunar.

Rúmar tvær vikur eru liðnar af árinu 2011 og svifryksmengun hefur þegar farið 6 sinnum yfir heilsuverndarmörk. Samkvæmt nýrri reglugerð má það gerast 7 sinnum allt árið. Talið er að um 50% svifryks í Reykjavík stafi af malbiki sem nagladekkin spæna upp. Norskir sérfræðingar segja að nagladekkin framleiði hundrað sinnum meira svifryk en venjuleg dekk.

Reykjavíkurborg þarf árlega að endurnýja 10 000 tonn af malbiki vegna þeirra tæpu 40 prósenta ökumanna sem keyra hálft árið á nagladekkjum. Kostnaður er talinn nema 150 til 200 milljónum á ári. Hann leggst jafnt á alla, líka þá fjölmörgu sem keyra aldrei á nöglum og þá sem kjósa bíllausan lífsstíl.

Svifrykið fer ofan í lungu á fólki. Foreldrum er ráðlagt að hafa börn sín inni þegar svifryksmengun er mest. Það er talið vont að fá mikið svifryk ofan í óþroskuð lungu. En auðvitað ætti þetta að vera öfugt, eins og Andri Snær Magnason benti á um daginn, það á að halda negldu dekkjunum inni, mengunarvaldinum, en ekki börnunum.

Umhverfis- og samgönguráð borgarinnar samþykkti samhljóða um daginn að láta kanna hvort rétt sé að leggja gjöld á þá sem kjósa að keyra um götur borgarinnar á nöglum. Það er skynsamlegt. Enn betra og réttara væri að banna nagladekk á götum borgarinnar. Þau eru óþörf. Góð heilsársdekk nægja.








Skoðun

Sjá meira


×