Körfubolti

NBA: Clippers vann grannaslaginn gegn Lakers - fjórir sendir í "sturtu"

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Það gekk ýmislegt á í leik Clippers og Lakers í gær.
Það gekk ýmislegt á í leik Clippers og Lakers í gær. AP

Það var óvenju lítið um að vera í NBA deildinni í körfubolta í gær en grannaslagur LA Clippers og LA Lakers stóð upp úr. Clippers, sem ávallt hefur verið litla liðið í LA, batt enda á sjö leikja sigurhrinu meistaraliðs LA Lakers með 99-92 sigri í Staple Center.

Eric Gordon skoraði 30 stig fyrir Clippers og Blake Griffin skoraði 18 og tók 15 fráköst fyrir Clippers. Það var heitt í kolunum og Baron Davis leikmaður Clippers var rekinn af leikvelli ásamt Lamar Odom úr Lakers fyrir slagsmál - en þrír aðrir leikmenn fengu einnig „kælingu" hjá dómurum leiksins.

Upptökin á slagsmálunum átti Lamar Odom leikmaður Lakers en hann greip í keppnistreyjuna hjá Griffin þegar um 6 sekúndur voru eftir af leiknum. Baron Davis blandaði sér í þetta mál og ýtti við Odom. Griffin, Davis og að sjálfsögðu Ron Artest voru sendir af leikvelli af dómurum og gætu átt yfir höfði sér leikbann.

Clippers hefur leikið vel gegn bestu liðum deildarinnar í vetur og náð sigrum gegn New Orleans Hornets og San Antonio Spurs.

Tony Parker skoraði 30 stig fyrir San Antonio í 110-97 sigri gegn Denver Nuggets. Carmelo Anthony var slakur í liði Denver en hann er sagður á förum frá liðinu á allra næstu dögum í risastórum leikmannaskiptum og líklega endar hann í New Jersey Nets.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×